Góð hegðun ekki sannreynd við uppreist æru

30.08.2017 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, sagði á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun, að dómsmálaráðuneytið rannsaki ekki sannleiksgildi umsókna eða umsagna vegna þeirra. Gögnum sem berist til ráðuneytisins sé tekið sem sönnun fyrir góðri hegðun þar til annað komi í ljós.

Sigríður sagði að í ráðuneytinu sé leitast við, með áratuga venju, að komast að því hvort umsækjendur uppfylli skilyrði fyrir uppreist æru með því að umsækjendur skili inn umsögnum tveggja manna. Hún segir að sér skiljist að þetta geti verið heilsufarsupplýsingar frá læknum, umsögn frá vinnuveitanda svo dæmi séu tekin. Ekki sé tekið við umsögnum frá fjölskyldu eða ungum einstaklingum. Að öðru leyti sé gögnum sem berist tekið sem sönnun þar til annað komi í ljós. 

Hún sagði ekki hafa komið til álita að óska eftir umsögnum frá fagaðilum. Frumkvæði komi ekki frá ráðuneytinu. Ef taka ætti slíkt upp þá væri hægt að auglýsa eftir því í Lögbirtingablaðinu. Þá kynnu engar umsóknir að berast, sagði Sigríður.