„Go West, young man!“

09.03.2017 - 14:45
Kristinn Jón Guðmundsson flutti heim til Íslands fyrir rúmu ári, eftir að hafa búið ólöglega í Bandaríkjunum í þrjátíu ár. Hann hafði velt því lengi fyrir sér hvort hann ætti að koma heim, en átti erfitt með að segja skilið við líf sitt í New York - því hann gerir sér grein fyrir því að hann á líklega ekki afturkvæmt.

Sálfræðingar hefðu búið til vandamál

„Nú á dögum þá hefði maður líklega verið sendur til sálfræðings og þeir hefðu búið til vandamál. Hefðu kallað það einhverjum nöfnum, Asperger eða athyglisskort en við vorum svo saklaus að við vissum ekkert af þessum möguleikum.“

segir Kristinn Jón þegar hann rifjar upp æskuárin á Kársnesinu í Kópavogi.

„Nú er verið að greina menn aftur í tímann og sagt, líklega hefurðu verið þetta eða hitt, þú hefur líklega verið einhverfur. Nei. Ég fór stundum í gönguferðir í frímínútum. Það er kannski einhverfulegt að ganga í hringi.“

Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1983. Hann fór að vinna í fiski og svo í póstinum - en það blundaði í honum löngun til að skoða heiminn. Tuttugu og þriggja ára keypti hann miða til New York, borgarinnar sem uppáhalds söngvarinn hans, Frank Sinatra, söng svo eftirminnilega um.

„Ég ætlaði nú ekki að flytja, ég ætlaði bara að fara. Og ég hélt alltaf að ég myndi finna hlutverk mitt í lífinu,“ segir hann og viðurkennir að hafa líklega verið örlítið týndur á þessum árum. „Ég var búin að lesa allar þessa skáldsögur og kvikmyndir, þú ferð til Ameríku og allt mun gerast. Þú munt finna þig, þar er þitt takmark. „Go West young man!,“ sögðu þeir.“

Kristinn Jón Guðmundsson í Kastljósi 9. mars 2017. Einar Falur Ingólfsson á ljósmyndirnar. Fá leyfi fyrir notkun.
 Mynd: Einar Falur Ingólfsson
Kristinn Jón nýkominn til New York.

Tók tíma að venjast stórborginni

„Það tók mig að minnsta kosti hálft ár að venjast New York, mér fannst þetta fráhrindandi í upphafi. Þetta var náttúrulega á mjög myrkum tíma í sögu borgarinnar. Það var engin gleði yfir fólki. Það var þrúgandi andrúmsloft. Það var krakk, kókaín og aids faraldur. Menn sögðu og blöðin birtu fyrirsagnir: Við munum öll deyja.“

Fyrstu tvö árin starfaði Kristinn við að dreifa flugritum og svo í 28 ár sem sendill hjá fatahreinsun. Hann kynntist mörgum í New York og oftar en ekki þeim sem tilheyrðu þeim lægst settu í samfélaginu. „Svo hefur alltaf verið svo að hvar sem ég kem að ég kynnist þeim sem eiga erfitt uppdráttar,“ segir hann og heldur áfram: „Þeir hafa alltaf tíma til spjalls.“„Þeir eru þeir einu sem muna eftir þér eftir þér. Til dæmis ef árin líða og þú sérð einhvern sem þú vannst einhvern tímann með. Þá segir hann: Hvar þekki ég þig frá? en ef það er einhver heimilislaus þá er það Chris! Þeir muna eftir öllum sem hafa gefið þeim pening.“

Kristinn Jón Guðmundsson í Kastljósi 9. mars 2017. Einar Falur Ingólfsson á ljósmyndirnar. Fá leyfi fyrir notkun.
 Mynd: Einar Falur Ingólfsson
Kristinn Jón kom til New York á myrkum tíma í sögu borgarinnar.

Þrátt fyrir að hafa oft umgengist fólk í óreglu þá hefur hann sjálfur aldrei drukkið áfengi eða neytt annarra vímuefna. „Það var bara einhver mótþrói.“

Bara Hollywood-stjörnur sem eignast börn á gamals aldri 

Dreymdi þig aldrei um að eignast fjölskyldu?

„Bara á fyrsta árinu þegar maður var ennþá ungur og óreyndur. Þá var ég að hugsa þetta þannig með þessari bresku, Mariu Paigen. Þá sá maður sjálfan sig sem fjölskylduföður í andanum. En ekki síðan þá, ég hef aldrei séð mig síðan þá. Svo var maður þrítugur - ég var 23 þegar ég kom, svo varð ég þrítugur, fertugur, fimmtugur. Og ég er ekki Anthony Quinn sem átti barn 78 ára. Enda deyr maður frá slíkum börnum þegar menn eru að því. Það eru bara Hollywood leikarar sem byrja á fjölskyldu á þeim árum.“

Hann fékk aldrei landvistarleyfi í Bandaríkjunum og bjó því ólöglega í landinu í þessi þrjátíu ár.

„Maður hélt alltaf að það væri verið að góma mann. og fyrstu árin, það var náttúrulega bara, það var verið að segja manni: ekki segja þetta niður í bæ að þú sért ólöglegur, þú veist ekki hver er að hlusta á, þú getur verið handtekinn. Miss Curry vinkona mín, þegar hún reiddist mér þá var hún að segja mér sögur af því að Immigration hefði haft samband við sig. "Þeir vildu spyrjast fyrir um þig, þeir voru að spyrja spurninga, svo farðu varlega." En þetta voru allt lygar.“

Hugurinn leitaði heim

Innflytjendaeftirlitið hafði aldrei afskipti af Kristni - en eftir því sem á leið, eftir hjónaband og ýmis ævintýri, leitaði hugurinn heim.

„Það sótti á mig að ég saknaði gamla landsins. Og það er mín persónulega kenning að ef ég hefði verið frá stærra landi þá hefði ég kannski aldrei komið heim. Því það er hægt að halda áfram, til dæmis þegar þú ert Ítali, eða Íri, þá geturðu haldið áfram að vera Ítali eða Íri því að allar stórfjölskyldurnar, menn flytja heilu stórfarmana af frænkum og ítölsku fæði og eini munurinn er sá að þeir eru komnir til Ameríku, en efnaðri. En Íslendingur í Ameríku, ef þú ert einn þá hverfurðu og þú hættir að vera Íslendingur.“

Vinir og ættingjar vildu fá hann heim

Æskuvinir Kristins úr Kópavoginum fóru út til hans árið 2014 með farseðil fyrir hann til Íslands í farteskinu. Þá var hann var ekki tilbúinn til þess að fara. Tveimur árum síðar sneri hann loksins heim, en það var ekki auðveld ákvörðun. Hann veit að hann á líklega ekki afturkvæmt. „Það var semsé komið að því, að það voru menn sem vildu fá mig. Vinir og sumir ættingjar. Mér fannst það mjög sérstakt af því að eftir þrjátíu ár ætti ég að vera gleymdur. Svo alltaf á hverju ári var fólki alltaf að fækka, ef ég kæmi heim sextugur þá væru margir fleiri dánir en núna og það var sumsé nú eða aldrei.“

Kristinn Jón Guðmundsson í Kastljósi 9. mars 2017. Einar Falur Ingólfsson á ljósmyndirnar. Fá leyfi fyrir notkun.
 Mynd: Kastljós  -  Kastljós
Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir Kristinn Jón að snúa aftur heim til Íslands eftir þrjá áratugi.

Þegar heim var komið fékk hann vinnu á gamalkunnum slóðum, hjá Póstinum. Þótt hann búi í Garðabæ, ber hann út póst í miðborg Reykjavíkur „Félagi minn, hann Gunnar, hann sá um þetta. Hann hringdi í mig og sagði, ég er búinn að finna vinnu handa þér. Og ég bara mætti.“

Nú ertu að vinna í póstinum og ert búinn að vera þar í nokkra mánuði, er það draumurinn eða er eitthvað annað sem þig langar til að gera? „Manni var talin trú um að maður gæti orðið rithöfundur eða eitthvað slíkt.“

 Er það nokkuð of seint? „Nei, kannski ekki. Svo gerðist það að lífið gengur sinn gang og menn fara að setja markið lægra, menn fara að setja það neðar, takmarkið. Stefna ekki eins hátt og áður. Það sagði ég alltaf, það er mark um að maður sé orðinn gamall þegar maður er búinn að gefast upp. Þegar manni er orðið sama. Ég sagði stundum, ef ég hefði verið tvítugur og séð mig núna eins og ég er fimmtugur, þá hefði mér ekki litist á blikuna. En það hræðilega er að núna er mér eiginlega sama hvernig komið er fyrir mér. En tvítugi ég, honum hefði fundist þetta hörmulegt, hvað ég hefði gert við líf mitt. “

En ertu ekki sáttur? „Jú, ég er sáttur og  held að þetta geti blessast, að vera á Íslandi.“

Viðtalið við Kristin verður sýnt í Kastljós í kvöld kl. 19:35.

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós