Gleymdi rándýru listaverki í leigubíl

02.05.2017 - 14:16
Erlent · Evrópa · Myndlist · Menning
epa04178324 Visitors pass by the artwork entitled 'Concetto Spaziale, Attese' by Argentine/Italian artist Lucio Fontana during a retrospective exhibition at the Modern Art Museum in Paris, France, 24 April 2014. The exhibition runs from the 25
Málverk eftir Lucio Fontana á sýningu í París í apríl 2014.  Mynd: EPA
Listaverkasali í París hefur farið til lögreglu og kært þjófnað eftir að hann gleymdi rándýru listaverki í leigubíl. Parísarlögreglan greindi frá þessu í dag og sagði verkið metið á 1,5 milljónir evra, jafnvirði næstum 175 milljóna króna.

Lögreglan vildi ekki gefa upp nafn listaverkasalans, en hann hefði ætlað á fund listaverkasafnara með umrætt verk. Það væri eftir ítalsk-argentínska listamanninn Lucio Fontana sem var uppi 1899 - 1968.

Listaverkasalinn hefði tekið leigubíl í 11. hverfi á fimmtudag í síðustu viku, sett verkið í farangursgeymslu bílsins, en síðan gleymt að taka það með sér. Maðurinn hefði reynt að hafa uppi á leigubílstjóranum án árangurs og hefði á laugardag lagt fram kæru.

Fréttastofan AFP segir að verkið sé úr röð verka sem listamaðurinn kallaði Concetto spaziale, en þar hefði hann skorið línur í striga málverksins til að skapa ákveðna áferð og ná fram ákveðnum áhrifum.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV