Gjörningar um allan bæ á Akureyri

Innlent
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni

Gjörningar um allan bæ á Akureyri

Innlent
 · 
Norðurland
 · 
Menningarefni
01.09.2017 - 22:45.Ágúst Ólafsson
Tónlist, myndlist, danslist og allskyns líflegir gjörningar eru framdir á Akureyri þessa dagana, á fjögurra daga gjörningahátíð þar sem 50 listamenn taka þátt. Þetta er hin árlega A! Gjörningahátíð og þar eru viðburðirnir eins ólíkir og listamennirnir eru margir.

Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, gengur út í Listagilið með stórt skilti sem á stendur A! Og hann hefur þar óvart framið gjörning. „Já, kannski. Allt sem við gerum eru auðvitað gjörningar. En þetta var ekki skipulagður gjörningur allavega, ekki mjög,“ segir hann.

Príma staðsetning fyrir gjörning eftir gjörning

Það er orðinn árviss viðburður að gjörningalistamenn, innlendir og erlendir, komi til Akureyrar síðsumars og haldi þar hátíð. Og það er úr mörgu að velja, þétt dagskrá, og allskonar viðburðir. Og það eru meira að segja viðburðir í heimahúsum. „Akureyri er alveg príma staðsetning með þetta að gera. Það er svo stutt að fara á milli,“ segir Guðrún Þórsdóttir, verkefnstjóri hátíðarinnar. „Og við getum verið með gjörning, eftir gjörning, eftir gjörning, á klukkutíma fresti. Það er að segja ef gjörningurinn er ekki of langur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Ég held að stystu gjörningarnir séu bara fimmtán mínútur, en þeir lengstu margir klukkutímar,“ segir Hlynur. „Og í sumum eru margir þátttakendur, í sumum er bara einn þátttakandi.“

Á gjörningahátíð veit maður stundum ekkert hvað er að gerast. En verkin eru myndræn, sumt er litskrúðugt, flestallt skemmtilegt og sennilega þarf maður ekkert að skilja allt. “Í sumum tilfellum er kannski mikilvægt að vita hvað listmaðurinn er að segja eða hvað hann er að pæla. En í öðrum tilfellum skiptir það engu máli. Þá er þetta bara einhver upplifun, mjög oft skemmtilegt, stundum verður maður sorgmæddur. En þannig eru gjörningar,“ segir Hlynur.