Geymdur í búri og haldið heima frá fæðingu

12.05.2017 - 04:19
Mynd með færslu
Ísraelskur lögreglubíll. Myndin er úr safni.  Mynd: Wikimedia Commons
Fjórtán ára piltur var leystur úr prísund foreldra sinna í Ísrael í gær eftir að hafa verið haldið heima hjá sér frá fæðingu. Ábending hafði borist um óþef úr íbúðinni í borginni Hadera og þegar lögregla mætti á staðinn átti hún von á að finna lík. Í staðinn mætti þeim drengur sem talið er að hafi nánast aldrei komið undir beran himin í fjórtán ár. Við húsið var heimasmíðað búr, falið undir áklæðum, og svo virðist sem drengurinn hafi stundum verið geymdur þar.

Foreldrar drengsins eru um sextugt og fluttust til Hadera frá Rússlandi árið 2009 án þess að nokkur vissi að þeir hefðu með sér barn. Þeir réðust á lögregluþjónana sem brutu sér leið inn í húsið og eftir að þeir voru yfirbugaðir og handteknir fannst drengurinn.

Talið er að drengnum hafi mögulega verið hleypt út úr íbúðinni inn í bakgarð við húsið stöku sinnum, en þá bara að nóttu til.

Chiko Waknin, sem býr í nágrenninu, var einn þeirra sem höfðu samband við yfirvöld eftir að hann sá drenginn inn um glugga á íbúðinni. Hann segir að drengurinn hafi litið út „eins og uppvakningur í hryllingsmynd“, að því er haft er eftir honum á vef BBC. Hann hafi séð í augunum á honum að hann þarfnaðist hjálpar og ákveðið að grípa til sinna ráða.

Drengurinn talar ekki hebresku og það er raunar óljóst hvort hann talar yfirhöfuð nokkuð.

Foreldrarnir halda því fram að strákurinn sé heilsuveill og þau hafi með þessu viljað vernda hann fyrir enn frekari heilsubresti.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV