„Geti aldrei tekið arð út úr rekstrinum“

12.05.2017 - 19:47
Sameiningar skóla hjálpa til við að þróa skólakerfið, segir Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans. Það sé mikill misskilningur að með sameiningum skóla sé verið að búa til stærri rekstareiningar sem skili auknum tekjum í vasa eigenda.

Áformað er að sameina Fjölbrautaskólann við Ármúla Tækniskólanum en óvíst er hvort af því verður. Menntamálaráðherra segir brýnt að huga að frekari sameiningum og Jón tekur undir það. „Ég held að svona sameiningar hjálpi okkur að þróa skólakerfið og menn verða svolítið að horfa út fyrir boxið og sjá möguleikana sem felast í að vera aðeins með stærri einingar og geta unnið saman.“

Hann vonast til að halda stöðu sinni sem skólameistari en kollegi hans í Fjölbrautaskólanum við Ármúla hefur ráðið sig annað. Kennarar við Ármúla eru ósáttir við það sem þeir kalla yfirtöku Tækniskólans og furða sig á því hvers vegna þessir skólar séu sameinaðir. „Í byrjun þá sá ég Ármúlaskóla og Tækniskólann ekki alveg líka en þegar fór að skoða og við fórum að kafa aðeins ofan í það hvað er að gerast hjá hvorum skóla þá kom í ljós að það var margt sem var ótrúlega líkt, þó svo að skólarnir virðist vera ólíkir við fyrstu sýn.“

Bóknámsbrautir skólanna falli vel saman, viðskipta- og heilbrigðisgreinarnar séu sterkar í Ármúla sem falli vel að náminu í Tækniskólanum. Þá sé öflugt nám fyrir fatlaða í báðum skólum, nýbúanám og góð tengsl við fagháskólastigið. Tækniskólinn er einkarekinn skóli. Rekstrarfélag hans er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka Iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur. Reksturinn hefur gengið vel síðustu ár og hagnaður numið rúmlega 150 milljónum króna síðan 2011.

Jón segir að megnið af fjármagninu fari í að bæta námið. „Við erum að sjálfsögðu með einkahlutafélag sem rekur þetta en það er skrifað inn í samþykktir tækniskólans að eigendur geti aldrei tekið arð út úr rekstrinum. Allt það fjármagn sem að eigendur leggja til inn í skólann er á sama degi og það er gert eign ríkisins vegna þess að við höfum þannig samning að ef að ríkið ákveður að slíta þessum samningi þá göngum við út þegar þeim tíma er lokið og ríkið tekur við öllu sem í skólanum er. Það er svona mjög algengur misskilningur heyrist mér að það sé verið að búa til einhvern gróða sem að síðan fari í vasann á einhverjum, það er bara ekki rétt, samþykktirnar loka því, samningurinn við ráðuneytið lokar því og vilji eigendanna stendur bara alls ekki til þess, eigendurnir vilja efla menntun og gera skólann betri.“