Gerðu góðverk – borðaðu pizzu

02.07.2017 - 11:30
Duldar auglýsingar og hinar nýju grímur kapítalismans í upplifunarsamfélaginu eru er umfjöllunarefni Halldórs Armands í pistli dagsins, en hann geldur varhug við samkrulli gróðafyrirtækja og góðgerðastarfssemi.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum algengari“

Svona hljómaði nýleg fyrirsögn á vef Rúv fyrir ekki svo löngu og var þar vísað til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, þar sem fólk sem er vinsælt á internetinu, þ.e. á marga vini á Facebook eða er með marga fylgjendur á miðlum eins og Instagram og Snapchat, nýtir sér þetta aðgengi sitt að vitundarlífi annarra til þess að auglýsa vörur fyrir fyrirtæki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram  -  Halldór Armand Ásgeirsson

Þú situr kannski með símann þinn í lófanum að drepa tímann á tannlæknabiðstofu, skrollar niður Instagram og sérð skyndilega manneskju sem er klædd í Adidas-klæðnað frá toppi til táar. Undir myndinni stendur svo „Ég elska Adidas“ þar sem búið er að setja myllumerki fyrir framan Adidas. Á næstu mynd sérðu manneskju á sólarströnd sem heldur á tiltekinni tegund af orkudrykk eða er með tiltekna tegund af tösku og svo framvegis. 

Áhrifavaldaiðnaður

Þetta er mjög áhugaverð þróun og framtíð auglýsinga liggur án nokkurs vafa einmitt í þessu - valdi vinsældanna. Stundum er sagt að samskiptamiðlar geri að verkum að hver manneskja geti í raun rekið fjölmiðil um sjálfa sig með tilheyrandi yfirlýsingum, fréttum og ljósmyndum, og auðvitað er þá eðlilegt að á einhverjum tímapunkti fari þessir einkalífsfjölmiðlar að birta auglýsingar.

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash  -  pexels.com

Fólkið sem selur fyrirtækjum aðgang að valdi vinsælda sinna er kallað áhrifavaldar. Hvar skyldi næsti áhrifavaldur leynast? Er vinur þinn eða vinkona áhrifavaldur? Er nágranninn áhrifavaldur? Er maðurinn á undan þér í röðinni áhrifavaldur? Er sonur þinn áhrifavaldur? Er amma þín áhrifavaldur? Er allt þetta fólk að reyna að selja þér skó eða prótíndrykki án þess að þú gerir þér grein fyrir því? Áhrifavaldaiðnaðurinn í auglýsingum var um 500 milljón dollara virði árið 2015, en árið 2020 er talið að þessi tala verði 5 milljaðar bandaríkjadollara. 

Menningarkapítalismi

Þetta er veruleiki sem er í senn absúrd og 100% kunnuglegur. Annað sem má greina í samskiptamiðlamenningu nútímans er sú breyting að við sem neytendur kaupum í síauknum mæli upplifanir í stað þess að kaupa vörur og það er engin tilviljun að samskiptamiðlar eru í kjarna sínum fyrst og fremst skrásetningar á upplifunum. Slavoj Zizek fer ágætlega yfir þetta í nýjustu bók sinni um Hugrekki vonleysisins. Fyrir um áratug síðan setti bandaríski höfundurinn og hugsuðurinn Jeremy Rifkin fram þá kenningu að sú efnahagslega þróun sem þá átti sér stað stefndi í átt þess sem hann kallaði „menningarkapítalisma“ eða „cultural capitalism” upp á ensku. Þetta hefur einnig verið kallað „upplifunarsamfélagið“ eða „the society of experience”. 

Það sem einkennir póst-módernískan kapítalisma er með öðrum orðum það sem við getum kallað neysluvæðingu raunveruleikans, það er hvernig verueikinn eins og hann birtist okkur er orðinn að neylsuvöru. Það sem við neytum í dag er okkar eigið líf. Það er til dæmis engin tilviljun að eitthvað sem kallast matarmenning og jafnvel á vondri íslensku matarupplifun eru töfraorðin í nútímaferðamennsku á sama tíma og vinsælasta myndefnið á samskiptamiðlum er oftar en ekki matardiskar. Þú ert það sem þú borðar, var einhvern tímann sagt, en í dag væri kannski réttara að segja að það sem þú borðar ert þú. Vel heppnuð mynd af matardiski getur miðlað mörgum ólíkum atriðum um innri mann þess sem hana setur fram. Fágun viðkomandi, fegurðarskyni, fjárhagslegri stöðu, lífsstíl og síðast en ekki síst hugmyndafræði. Auðvitað er öllum nákvæmlega sama um hvað aðrir eru að borða, það vita allir, en mynd af mat er ekki mynd af mat. Hún er mynd af öllu öðru en mat.

Mynd með færslu
 Mynd: pexels.com  -  tookapic

Ég tek undir þessa sýn á nútímakapítalisma. Við kaupum hluti í æ minna mæli, en þeim mun meira af upplifunum. Eins og Zizek bendir á kaupum við okkur gott form með því að kaupa líkamsræktarkort, andlega fullnægju með því að skrá okkur í jóga eða fara í hugleiðsluferðir til Indlands, og jafnframt þá sjálfsupplifun að við séum félagslega ábyrg og meðvituð um umhverfið með því að kaupa lífræna matvöru og svo framvegis. Þessi hegðun kann að hafa ýmislegt gott í för með sér en rót hennar er engu að síður fyrst og fremst hugmyndafræðileg. 

Orwellískar slóðir

Ef við pírum augun í átt að hversdeginum getum við greint þessa grímu tíðarandans dúkka upp víðar, til dæmis í þeirri tilhneigingu fyrirtækja til þess að selja vörur sínar undir þeim formerkjum að þær séu seldar í góðgerðarskyni. Það er eitt að kaupa sér pizzu, en annað að kaupa sér svokallaða góðgerðarpizzu, eins og stór pizzukeðja hérlendis bauð upp á um daginn. Hér erum við komin á næstum Orwellískar slóðir hvað tungumálið varðar þar sem það að kaupa sér pizzu er skyndilega orðið að kærleiksverki. Heimurinn verður að betri stað ef þú pantar þér þessa pizzu. Er það virkilega svo auðvelt? Er hægt að gera góðverk með því að kaupa sér pizzu? Hér verðum við að setja stólinn kirfilega fyrir dyrnar. Svarið er auðvitað nei. Að vinna kærleiksverk felst í því að setja sjálfan sig til hliðar í nafni ástar eða hugsjóna og það er engin sérstök göfgi eða kærleikur í því fólginn að panta sér pizzu, sama hvernig á það er litið. En við sjáum áðurnefnda tilhneigingu birtast hér. Við erum lokkuð til þess að panta okkur pizzu frá tilteknu fyrirtæki vegna þess að við fáum ekki bara pizzu í staðinn, heldur ákveðna upplifun, nánar tiltekið þá sjálfsupplifun að við séum göfugar manneskjur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jeremy Levin  -  pexels.com

Sorp í æðri þjónustu

Er til skýrara dæmi um óstöðvandi sigurgöngu markaðsafla í lífi okkar, þar sem það að láta gott af sér leiða er orðið innifalið í neyslulífsstílnum? Við þurfum ekki lengur að hafa samviskubit yfir eigin lífsstíl sem fær okkur til að hugsa og hvetur okkur kannski til þess að líta í eigin barm og jafnvel láta gott af okkur leiða. Þetta er orðið að einu og sama fyrirbærinu. Hið göfuga ruslfæði. Hin líknandi lágmenning. Sorp í æðri þjónustu. Öðrum þræði er þetta náttúrulega gjörsamlega brilljant, því verður ekki neitað. Hér erum við ekki bara að tala um einhvern fairtrade kaffibolla sem núllar út eigin skaðsemi, heldur hvorki meira né minna en pizzu sem bjargar heiminum. 

Spurningin er þá: Af hverju er þetta slæmt? Af hverju er ég að pota í þetta þegar góðgerðarpizzan leiðir mögulega til þess að tiltekin samtök fá einhverjar krónur í lófann til að gera gagn? Svarið er að þegar við tökum þátt í falsgóðgerðarstarfi af þessum toga - sem er ekkert annað en ímyndarherferð fyrirtækis, höfum það alveg á hreinu - erum við ólíklegri til þess að taka þátt í alvörugóðgerðarstarfi, að gera eitthvað í alvörunni, setja okkur sjálf til hliðar í nafni ástar og kærleika - vegna þess að okkur líður eins og við séum þegar búin að leggja eitthvað af mörkum, að neysla okkar nægi, að við þurfum ekki að breyta neinu, auk þess sem svona fyrirbæri eru til þess fallin að normalísera þá staðreynd að góðgerðarstarf sé lagað 100% að okkar eigin neyslu og passífa lífsstíl, en ekki eitthvað sem við þurfum að nálgast af auðmýkt og án þeirrar kröfu að við eigum rétt á einhverju öðru í staðinn.

Jóhannes Ólafsson
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi