Gerði tilraun með nýtt flugskeyti

14.05.2017 - 23:45
epa05962689 South Koreans watch a television displaying news broadcasts reporting on North Korea's recent ballistic missile launch, at a station in Seoul, South Korea, 14 May 2017. North Korea launched a ballistic missile earlier in the day on 14 May
 Mynd: EPA
Flugskeytið sem Norður-Kórea skaut á loft í gærkvöld var af nýrri tegund. Frá þessu var greint í kvöld á ríkisfjölmiðli landsins, KCNA. Tilraunin var fordæmd víða og Rússar og Kínverjar lýstu yfir þungum áhyggjum af vaxandi spennu á Kóreuskaga.

Skeytið var meðal- eða langdrægt að sögn KCNA og ber heiti Hwasong-12. Kim Jong-Un fylgdist sjálfur með tilrauninni á æfingasvæði hersins. AFP fréttastofan hefur eftir KCNA að tilraunin hafi verið gerð til þess að athuga tæknileg smáatriði og sérkenni flugskeytisins, sem á að geta borið stóran og kraftmikinn kjarnaodd. Skeytið lenti nákvæmlega á tilætluðum lendingarstað, 787 kílómetrum frá skotstað. Mest náði það yfir tvö þúsund kílómetra hæð að sögn fréttastofunnar.

Norður-kóresk stjórnvöld telja nauðsynlegt að koma upp öflugu kjarnavopnabúri til að verjast innrásum. Markmið þeirra er að gera nógu öflug flugskeyti til að geta borið kjarnaodd til meginlands Bandaríkjanna. Undanfarnar vikur hefur spennan verið í hámarki á milli ríkjanna. Norður-Kórea hefur ítrekað hótað fyrirbyggjandi árásum og á móti hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að innrás í Norður-Kóreu sé vel möguleg. Landið er beitt miklum viðskiptaþvingunum af hálfu Sameinuðu þjóðanna vegna ítrekaðra kjarnorku- og flugskeytatilrauna.