Gengið gegn staðleysum um allan heim

22.04.2017 - 10:48
epa05920553 People stand together holding placards during the March for Science day at Martin Place in Sydney, Australia, 22 April 2017. The March for Science describes itself as a celebration of our passion for science and a call to support and safeguard
 Mynd: EPA  -  AAP
Gengið verður til stuðnings vísindum á yfir 500 stöðum í heiminum í dag, þar á meðal á Íslandi, á degi jarðar. Tilefni göngunnar er áhyggjur af síauknum árásum stjórnmálamanna á staðreyndir og rök, og ótti um að vísindarannsóknum verði vikið til hliðar í stefnu stjórnvalda. Í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi gengu þúsundir til stuðnings vísindum. Mótmælendur í hvítum sloppum biðluðu til stjórnmálamanna um að styðja vísindasamfélagið. Í Reykjavík verður gengið frá Skólavörðuholti klukkan eitt.

20. janúar, daginn sem Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna, birtist frétt á veftímaritinu Vice um að hvergi væri lengur minnst á loftslagsbreytingar á vef Hvíta hússins. Notandi Reddit-vefsins sá fréttina og skrifaði þar athugasemd um að vísindamenn þyrftu að efna til göngu í Washington. Jonathan Berman, vísindamaður við Texas-háskóla, sá athugasemdina og ákvað að stofna Facebook-síðu. Hún náði augum hundraða þúsunda manna.

Forsprakkar íslensku göngunnar ætla að hittast við styttuna af Leifi Eiríkssyni á Skólavörðuholti klukkan eitt. Markmiðið er að sýna vísindafólki samstöðu og fagna vísindum sem mikilvægri stoð í lýðræðislegu samfélagi, segir í tilkynningu um gönguna. Að göngunni lokinni verður fundur í Iðnó þar sem tala Ashley Mears, dósent í félagsfræði við Boston-háskóla, Halldór Björnsson, hópstjóri veður- og loftslagsrannsókna á Veðurstofu Íslands og Ragnhildur Helgadóttir lagaprófessor.

Erna Magnúsdóttir, einn skipuleggjenda göngunnar og dósent við læknadeild Háskóla Íslands, segir að allt sem gerist í Bandaríkjunum, sérstaklega það sem tengist loftslagsbreytingum, hafi mjög mikil áhrif um allan heim.

„En svo líka höfum við verulegar áhyggjur hérna á Íslandi, bæði af stuðningi við háskólakerfið sem hefur bein áhrif á vísindi og vísindavinnu á Íslandi, og svo líka bara við áhrif vísinda á ákvörðunartöku til dæmis inni á Alþingi, og hentistefnu í hvort að það sé hlustað á vísindaleg rök eða ekki.“

Donald Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki mark á staðreyndum, sér í lagi þegar kemur að vísindum. Hann hefur hunsað samdóma álit helstu vísindamanna um að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu eitt mesta áhyggjuefni samtímans, og hefur lagt til að framlög til Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, EPA, verði skorin niður um næstum þriðjung, og að fjórðungur stöðugilda verði lagður niður. Þessi boðaði niðurskurður er svo mikill að búist er við að jafnvel samflokksmenn Trumps í Repúblikanaflokknum leggist gegn þeim í þinginu.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV