Gefur út bók í minningu barnabarns síns

31.07.2017 - 15:12
Ástríður Grímsdóttir gefur í dag út bók í minningu barnabarns síns, Ástríðar Erlendsdóttur sem hefði orðið 25 ára í dag. Ástríður yngri lést fyrir þremur árum eftir átakanlega ævi en hún barðist lengi við vímuefnafíkn. Ástríður eldri, amma hennar, var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 fyrir helgi og sagði frá útkomu bókarinnar.

Í bókinni Nú erum við í ljótum málum - sögur af Týra og Bimbó segir frá hundum sem lenda í ýmsum ævintýrum. Ástríður segist hafa byrjað að búa til alls konar sögur fyrir dótturdóttur sína þegar hún var þriggja ára. Þær hafi þróast út í hundasögur, af Týru og Bimbó, hundum sem voru til og þaðan fór boltinn að rúlla.

Gerir allt sjálf

Ástríður stendur ein að útgáfu bókarinnar, myndskreytir hana sjálf og gefur út frá a-ö. Allur ágóði bókarinnar rennur til hjálparsamtaka sem hlúa að ungum fíklum sem eru að reyna að koma undir sig fótunum aftur, samtökum sem sinna aðstandendum, foreldrum eða öðrum sem hafa misst einhvern nákominn vegna fíknar.

Sárvantar úrræði

Ástríður segir að ekki veiti af stuðningi við þennan þjóðfélagshóp og sér í lagi unga fíkla. „Það vantar svo sannarlega úrræði. Það sem er í boði í dag er lítið sem ekki neitt. Auðvitað hjálpar það einhverjum en ungir fíklar, sem eru komnir í það að sprauta sig, hafa oftast ekkert í að fara þegar þau koma út á götuna aftur nema kannski gamla neyslufélaga.“

Ástríður var í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið árið 2014.  

Bókin kemur út í dag en útgáfuhóf hennar er í Akogessalnum, Lágmúla 4, í dag, mánudaginn 31. júlí frá klukkan 17-19.

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi