Gagnslausir múrar, lögbrot og skortur á mannúð

Mynd með færslu
 Mynd: Amnesty International
Evrópusambandið hefur brugðist við auknum straumi flóttamanna með ómannúðlegum hætti. Með því að reisa veggi og gera ólöglegan samning við Tyrkland um móttöku flóttafólks. Ef sambandið gerir fleiri slíka samninga er úti um Flóttamannasáttmála Sameinuðu þóðanna. Þetta segir Anna Shea, sérfræðingur hjá mannréttindasamtökunum Amnesty International.

Shea er lögfræðingur, heldur utan um málefni flótta- og farandsfólks hjá aðalstöðvum samtakanna í London og hefur unnið rannsóknir á málefnum flóttafólks í fjölmörgum löndum. Hún flutti í dag erindi í Háskóla Íslands. Það bar yfirskriftina Evrópska flóttamannakrísan: Lausn í leit að vandamáli?

Áform Evrópusambandsins hafa ekki gengið eftir

Árið 2015 flúði milljón yfir hafið til Evrópu í leit að öryggi og vernd. Yfir 4000 drukknuðu á leiðinni. Evrópuríki lokuðu landamærum sínum og tugþúsundir urðu strandaglópar í Grikklandi. Í september árið 2015 samþykktu Evrópusambandsríki að dreifa flóttamönnum jafnar um álfuna með hjálp kvótakerfis, létta álaginu af Grikklandi og Ítalíu. Fyrir haustið 2017 átti að veita 66.400 flóttamönnum í Grikklandi vernd í öðrum Evrópulöndum. Þetta hefur ekki gengið eftir, einungis 9600 hafa fengið vernd í öðrum Evrópulöndum.

epa05227428 A migrant tries to push a pram through mud at the refugee camp on the Greek-Macedonian border in Idomeni, Greece, 23 March 2016. Migration restrictions along the so-called Balkan route, the main path for migrants and refugees from the Middle
 Mynd: EPA
Flóttamannabúðir í Grikklandi.

Í skýrslum Amnesty International kemur fram að tugþúsundir hírist í hrörlegum flóttamannabúðum í Grikklandi, í tjöldum sem ekki halda veðri og vindum. Hreinlætisaðstöðu er ábótavant, öryggi sömuleiðis. Íbúar geta ekki reitt sig á lögregluna, þeir hafa oft ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða lögfræðiþjónustu, þeir bíða bara. 

Tyrkland ekki öruggt ríki

Það eru fimm milljónir Sýrlendinga á flótta utan heimalands síns. Þrjár þeirra dvelja í Tyrklandi og Tyrkir hafa varið háum fjárhæðum til þess að taka á móti þeim. Fyrir ári síðan gerði Evrópusambandið umdeildan samning við Tyrkland. Sambandið skilgreindi Tyrkland sem öruggt ríki. Það greiddi Tyrkjum sex milljarða evra fyrir að taka við Sýrlendingum sem flúið höfðu yfir Eyjahafið til grískra eyja og koma í veg fyrir að fleiri legðu upp í slíkan leiðangur. Evrópusambandið hét því að fyrir hvern Sýrlending sem sendur er frá Grikklandi til Tyrklands fengi einn Sýrlendingur staddur í Tyrklandi hæli í Evrópusambandsríki. Enn sem komið er hafa einungis um 3000 Sýrlendingar verið fluttir frá Tyrklandi til Evrópu. Enn færri hafa verið sendir frá Grikklandi til Tyrklands. Shea er alfarið á móti samningnum. Hún segir að Tyrkland sé ekki öruggt ríki og virði ekki réttindi flóttafólks. Það sé ekki fræðilegur möguleiki að ríki á borð við Tyrkland sem státar af tveggja ára gömlu hæliskerfi geti veitt þremur milljónum Sýrlendinga alþjóðlega vernd. Það skipti engu hversu miklum fjármunum sé veitt til þess.

epa05149886 A handout picture provided by Turkish President Press office shows Turkish President Recep Tayyip Erdogan (L) receiving German Chancellor Angela Merkel (R) in Ankara, Turkey, 08 February 2016. German Chancellor Angela Merkel is on an official
 Mynd: EPA  -  TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE
Erdogan og Merkel.

Tyrkir hafi ítrekað brotið alþjóðalög

Þá segir hún að Tyrkir hafi ítrekað gerst sekir um að senda fólk sem flýr stríð og ofsóknir og á rétt á vernd aftur til Sýrlands eða annarra ríkja sem ekki geta tryggt öryggi þeirra. Það sé skýrt brot á flóttamannasáttmálanum. Hún segir Amnesty hafa sýnt fram á að Tyrkir hafi haldið áfram að senda flóttamenn aftur til síns heima eftir að samningurinn tók gildi á síðasta ári og í aðdraganda valdaránsins síðastliðið sumar. 

Hættulegt fordæmi

Shea segir að með samningnum hafi Evrópusambandið sett hættulegt fordæmi.

„Ef Evrópusambandið semur við ríki sem fólk flýr eða óörugg ríki sem flóttafólk hefur viðkomu í á leið eitthvert annað, ef það biður þessi ríki að hindra för fólks úr landi eða til Evrópu, þá getur fólk ekki farið úr landi, það getur ekki óskað eftir vernd annars staðar." 

Það verða þá engir flóttamenn og ekkert verndarkerfi, segir Shea. Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna grundvallist á einni meginreglu: Að fólk eigi rétt á því að flýja ofsóknir í heimalandi sínu og sækja um vernd í öðru landi. Shea segir samninga á borð við þann sem gerður var við Tyrkland fela í sér skýrt lögbrot. Geri sambandið fleiri slíka samninga marki það endalok Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Engin stofnun tryggi að lögum sé fylgt

En hvers vegna hafa viðbrögðin þá ekki verið sterkari? Hvers vegna er þessi samningur enn í gildi? Shea segir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtök hafi brugðist við af hörku en alþjóðleg lög séu ólík lögum einstakra ríkja. Það sé engin yfirþjóðleg stofnun sem fylgist með því að þeim sé framfylgt. Þetta eigi sérstaklega við um Flóttamannasáttmálann. Það sé enginn alþjóðlegur flóttamannadómstóll sem tryggi að ríki fari að lögum.

Ítrekaðar hótanir af hálfu Tyrkja

Tyrkneskir ráðamenn hafa síðastliðið ár ítrekað hótað því að rifta samningnum og hætta að stöðva för fólks til Evrópu verði Evrópusambandið ekki við hinum og þessum kröfum. Nú síðast á mánudaginn sagði ráðherra Evrópumála í Tyrklandi að réttast væri að endurskoða samninginn í ljósi deilna hollenskra og tyrkneskra stjórnvalda. Shea segir að Tyrkir séu í raun að kúga Evrópusambandið. Það sé hættulegt að nota manneskjur sem skiptimynt. 

Skortur á pólitískum vilja

Shea segir að Evrópusambandsríkin gætu vel gert betur, þau tilheyri ríkasta ríkjasambandi heims. Fjöldi flóttafólks sé ekki óviðráðanlegur. Það skorti ekki fjármagn. Lausnirnar liggi fyrir. Það skorti fyrst og fremst pólitískan vilja. Hún segir brýnt að öll ríki leggi sitt af mörkum til að bregðast við vandanum. Í dag sé framlag þeirra ríkja sem séu verst í stakk búin til þess að takast á við vandann langstærst. Það sé ósanngjarnt. Shea telur að Evrópusambandsríkin ættu að styðja betur við Grikki og gera þeim kleift að búa almennilega að flóttafólki, það sé nú einu sinni vegna Dyflinnarreglugerðarinnar og stefnu Evrópusambandsins sem svo margir sitji þar fastir. Evrópuríki ættu líka að styðja við ríki á borð við Tyrkland og Líbanon en það dugi ekki til eitt og sér.

Ekki hægt að losna við vandann með því að styðja Tyrkland

Hún segir að flóttamannaverkefni samtakanna séu alltaf undirfjármögnuð. Það veiti ekki af fé. Ríkisstjórnir Evrópuríkja séu viljugar til að verja fjármunum til þessara verkefna en voni að við það hverfi vandinn. Raunin sé sú að Evrópuríki þurfi að gera fólk kleift að ferðast án hindrana. Þeim bita eigi ráðamenn erfitt með að kyngja. Nú séu að rísa veggir út um allt, landamæragæsla hafi verið hert. Það sé auðvelt að gleyma því að hér áður fyrir hafi fólk átt auðvelt með að komast til Evrópuríkja. Hvers vegna Evrópusambandið hefur valið að þenja út landamæri sín og reisa virkismúra skil ég ekki, segir Shea en þessir múrar virki ekki. Þeir séu gagnslausir. 

„Það er í eðli fólks að vilja fara á milli landa. Spurningin er bara hvort ríkisstjórnir Evrópuríkja hyggist gera því kleift að koma til Evrópu með öruggum hætti eða hvort þær vilja að fólk hætti lífi sínu."

Það þurfi að huga sérstaklega að fólki sem er berskjaldað og ríki á borð við Tyrkland og Líbanon geta ekki stutt nægilega við. Evrópuríki þurfi að veita fleirum þaðan vernd eða vegabréfsáritun. Það sama eigi við um fólkið sem dvelur í Grikklandi. Þetta sé eina leiðin. 

Alltaf sömu svörin

Evrópusambandsríkin hafa uppfyllt lítinn hluta skuldbindinga sinna. Hvers vegna hafa þau ekki gert meira? Hvaða svör fá fulltrúar Amnesty International þegar þeir spyrja ráðamenn sambandsins? Öryggistékk, skortur á innviðum, skortur á starfsfólki. Það eru alltaf sömu svörin en ég kaupi þau ekki, segir Shea. Ef þeir hefðu áhuga á að taka við fleirum myndu þeir gera það. Hún vísar til aðgerða stjórnvalda í heimalandi sínu Kanada. Áður tóku þau við um þúsund sýrlenskum flóttamönnum á ári, nú taka þau við 35 þúsund.

Ísland geti gert betur

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV

En hvað með Ísland? Shea segir jákvætt að Ísland sé eitt 30 ríkja í heiminum sem tekur við kvótaflóttamönnum. Hún telur þó að íslensk stjórnvöld geti tekið við mun fleiri flóttamönnum en 50 ári. Verg landsframleiðsla á Íslandi sé tvöfalt hærri en á Tyrklandi.