Gagnaver Verne formlega opnað

08.02.2012 - 20:53
Mynd með færslu
Gagnaver Verne Global var formlega opnað í Reykanesbæ í dag. Stjórnarformaðurinn segir margar hindranir hafa verið yfirstignar og nú sé allt til reiðu að bjóða þjónustu á alþjóðavísu.

Í febrúar 2008, á undan tveimur eldgosum og einu efnahagshruni, voru þrír ráðherrar viðstaddir undirritun samnings gagnaver Verne. Þá átti Novator, fyrirtæki Björgólfs Thors Björgólfssonar 40 prósenta hlut, nú er hann fimmtungur.

„Við þurftum að glíma við ýmis ljón í veginum til að koma þessu fyrirtæki á laggirnar hér en með hjálp stjórnmálamanna og heimamanna hér tókst okkur að sigrast á þeim,“ segir Jeff Monroe, stjórnarformaður Verne Global. „Sé litið raunsætt á málið verða Íslendingar að halda áfram að eflast jafnhliða gagnaiðnaðinum og eftir því sem hann breytist verða þeir að vera í fremstu röð svo þeim séu ljósar þarfir iðnaðarins,“ segir hann og bætir því við að í dag sé allt til reiðu fyrir alþjóðlega viðskiptavini.

Stjórnvöld hafa greitt götu gagnaversins með fjárfestingarsamningi og í ráði er að veita því ívilnanir vegna virðisaukaskatts. Fjármálaráðherra segir opnun versins ákveðinn ísbrjót og á von á frekari vexti gagnavera.

„Forsetndurnar fyrir því að þetta gangi allt saman vel er græna orkan okkar, rokið sem við eigum nóg af hér á Suðurnesjum, góðar tengingar og síðan að skapa fyrirtækjunum rekstrarumhverfi þannig að þau séu samkeppnishæf við önnur slík fyrritæki á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra.

Gagnaverði getur stækkað margfalt miðað við það sem nú er og strax á morgun verður tilkynnt um nýja viðskiptavini.