Gætu þurft að vísa umsækjendum frá

16.06.2017 - 13:47
Merki háskólans á Akureyri.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Rektor Háskólans á Akureyri segir háskólum á Íslandi svo þröngur stakkur sniðinn næstu ár, að mögulega verði að vísa umsækjendum frá haustið 2018. Metaðsókn er í Háskólann á Akureyri í haust sem er kominn að þolmörkum með núverandi fjárveitingum.

Fyrir þinglok var samþykkt að hækka fjárframlög til háskólanna, það er þó aðeins fyrir næsta skólaár og alls óvíst hvort aukafjárveitingar til háskólanna nái til næstu skólaára.

Starfsemin komin að þolmörkum

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að fyrsta verkefnið sé að fá svör við því hvort sú aukning verði varanleg. „Verði sú aukning varanleg stöndum við jú aðeins betur að vígi en það breytir því ekki að heildarramminn til næstu fimm ára er fastur. Og hann er fastur utan um starfsemi sem er nú þegar er komin að þolmörkum.“

Þurfa að takmarka aðgengið að óbreyttu 

Eyjólfur óttast afleiðingarnar ef engar aukafjárveitingar verði til háskólanna á næstu árum. „Er samfélagið tilbúið að fara í þá umræðu hvernig takmarka eigi aðgengi að háskólum árin 2019 og 2020?“ segir hann og segist sjá fram á að það þurfi að takmarka aðgengi að háskólum á Íslandi ef fjárlögin standi. “Ef svo fer sem horfir þá verðum við að aðlaga okkur að þeim veruleika.“

Nemendur leiti til útlanda ef námið er takmarkað hér

Háskólarnir hafa bent á að 6-8 milljarða vanti inn í háskólakerfið, annars verði erfitt að bjóða upp á samkeppnishæft nám í alþjóðlegum skilningi. „Það er hægt en það er erfitt,“ segir Eyjólfur. “Það er líka spurning um hversu mikið nám verður í boði á Íslandi versus erlendis. Í því samhengi má benda á að þegar við höfum takmarkað nám á Íslandi þá hafa nemendur oft leitað erlendis í samskonar nám. Þá ættum við að spyrja okkur, hver er hinn raunverulegi sparnaður af því?“

 

Mynd með færslu
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
Fréttastofa RÚV