Gæti þurft að loka leikskóladeildum

13.08.2017 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Að óbreyttu gæti þurft að loka leikskóladeildum í Reykjavík. Um 130 vantar til starfa á leikskólum borgarinnar fyrir veturinn. Leikskólastjóri segir að algjör skortur sé á fagmenntuðum leikskólakennurum.

Þórunn Gyða Björnsdóttir, formaður Reykjavíkurdeildar félags stjórnenda leikskóla og leikskólastjóri í Rofaborg, segir að að mjög erfiðlega gangi að ráða fólk til starfa á leikskólum borgarinnar.  „Það vantar um 130 manns í leikskólana. Leikskólakennarar eru ekki til, þeir liggja ekki á lausu.“ 

Leikskólastjórar gera þó allt hvað þeir geta. „Allir stjórnendur eru núna að vinna að því að auglýsa og eru með allar klær úti til þess að reyna að ráða fólk. Það hefur eftir því sem fregnir herma gengið svona misjafnlega.“

Þórunn gagnrýnir að ekki hafi verið brugðist við vandanum fyrr. „Þetta er búið að vera fyrirsjáanlegt í einhvern tíma að við séum að sigla inn í svona mikla manneklu. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem að endurnýjun á leikskólakennurum hefur ekki verið í takt við það sem hún þarf að vera.“ Þórunn segir nokkuð ljóst hvernig fari ef ekki takist að ráða í þessar stöður. „Ef að ekki tekst að ráða hæft fólk sem hefur burði til að vinna í leikskóla þá er það fyrirsjáanlegt að það þarf að loka einhversstaðar deildum.“

Hún segist ekki vita til hver staðan sé í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Leikskólastjórnendur í Reykjavík funda á næstu dögum til að fara yfir stöðuna. Ljóst er að margt þarf að ganga upp á næstu tveimur vikum hjá leikskólastjórum ef koma eigi í veg fyrir lokanir leikskóladeilda.