Gæti sett innflutning á drykkjum í uppnám

08.05.2017 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félag atvinnurekanda hefur sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu formlegt erindi og farið fram á að nýrri reglugerð um drykkjavöruumbúðir verði breytt. Í reglugerðinni er gerð sú krafa að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum verði lóðrétt en ekki lárétt. Að mati félagsins skapar þetta viðskiptahindrun sem sé algjörlega órökstudd og gæti sett innflutning á drykkjum í uppnám.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda. Reglugerðin á að taka gildi 1. júní næstkomandi og er í umsagnarferli á EES-svæðinu til 23. maí.  Evrópsk samtök áfengisframleiðenda hafa mótmælt ákvæði reglurgerðarinnar harðlega. Þau segja það skapa viðskiptahindrun, þörfin á því sé óútskýrð og önnur ríki EES séu ekki í neinum vandræðum með að leyfa hvort heldur er lárétt eða lóðrétt strikamerki á drykkjum. 

Íþyngjandi krafa

 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að krafan sé með öllu órökstudd. „Að okkar mati er afar gagnrýnivert að ráðuneytið hefur ekki rökstutt með neinum hætti þörfina á þessari nýju kröfu. Krafa sem þessi er hvergi annars staðar í gildi á EES-svæðinu. Hún er gríðarlega íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki, skapar viðskiptahindrun og mun að öllum líkindum hafa í för með sér hærra vöruverð fyrir neytendur. Þetta er enn eitt dæmið um að stjórnsýslan setur reglur út í loftið án þess að velta fyrir sér eitt augnablik áhrifunum á atvinnulífið.“

Séríslensk krafa

Samkvæmt Félagi atvinnurekenda er ekki að finna sambærilega kröfu í Evróputilskipun eða Evrópureglugerð. Verði af því að krafan verði í endanlegri útgáfu reglugerðarinnar mun einnig vera gengið lengra að þessu leyti hér á landi en í nágrannalöndunum. Þá telur félagið að vegna smæða markaðarins sé nánast útilokað að erlendir framleiðendur myndu fást til að sérmerkja þær vörur sem flytja ætti til Íslands. Þá yrðu innflytjendur að endurmerkja allar flöskur með tilheyrandi kostnaði og telur FA að sá kostnaður myndi að endingu lenda á neytendum með hærra vöruverði. 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV