Gæti orðið digur sjóður

11.01.2017 - 16:29
Innan fárra ára gæti allt að 20 milljarðar króna árlegur arður Landsvirkjunar runnið í stöðugleikasjóð sem ríkisstjórnin stefnir að komið verði á fót. Hugmyndin er ekki alveg ný því fjármálaráðherra viðraði þessa hana fyrir tveimur árum. Nú væri lag að stofna slíkan sjóð. Fyrirmyndin er meðal annars sótt til Norðmanna sem stofnuðu fyrir tæpum 30 árum olíusjóðinn. Virði hans er nú um 103 þúsund milljarðar íslenskra króna.

„Ég tel tímabært að við Íslendingar stofnum sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð okkar Íslendinga, sem í myndi renna allur arður af nýtingu orkuauðlindanna," segði Bjarni Benediktsson.

Þetta sagði fjármálaráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 2015. Þá hét sjóðurinn orkuauðlindasjóður eða fullveldissjóður. Nú heitir hann stöðugleikasjóður sem ný ríkisstjórn stefnir  að stofnaður verði eins og fram kemur í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Stofna skal stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum  hlutdeild  í  ávinningi  af  sameiginlegum  auðlindum  og  geti  verið  sveiflujafnandi  fyrir efnahagslífið. 

 Frá því að hugmyndinni var varpað fram hefur verið talað um að arður af Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í eigu ríkisins verði settur í sjóðinn. Bjarni talaði um að sjóðurinn yrði einskonar varasjóður fyrir Íslendinga og að hann yrði jafnframt stöðugleikasjóður til að jafna út efnahagssveiflur í hagkerfinu.  Hann sagði að það væri þolinmæðisverk að byggja upp sjóðinn og að það yrði að hugsa til langs tíma. Rétti tíminn væri nú að taka ákvörðun um stofnun slíks sjóðs. Hann yrði notaður til að greiða niður skuldir ríkisins og styðja við fjármögnun mikilvægra innviða.

„Á borð við framkvæmdir eða uppbyggingu í menntakerfinu en það þyrfti að afmarka slík verkefni með skýrum hætti bæði hvað varðar umfang og tíma," sagði Bjarni.

Bjarni sagði að hugmyndin væri að byggja upp myndarlegan höfuðstól og styrkja þannig efnahagslega stöðu landsins.

„Í verkefni sem þessu næst einungis árangur ef hugsað er til langs tíma. Sé það gert getur sjóðurinn verið mikilvægt hagstjórnartæki. Tryggt væri að við legðum til hliðar í uppsveiflu og sjóðurinn væri til staðar til að blása lífi í hagkerfið í niðursveiflu," sagði Bjarni.

Leitað í smiðju Norðmanna

Fjármálaráðherra vakti aftur máls á stofnun sjóðsins á ársfundi Landsvirkjunar í vor. Þar sagði hann að sérstaklega hefði verið litið til Noregs eða Olíusjóðsins. Norðmenn byrjuðu að bora eftir olíu 1969. Tekjurnar voru til að byrja með nýttar til að byggja upp olíuiðnaðinn en fljótlega gerðu Norðmenn sér grein fyrir að um umtalsverðar tekjur væri að ræða. Olíusjóðurinn var stofnaður 1990. Markmiðið var meðal annars að skapa svigrúm til að mæta erfiðleikum vegna lækkandi olíuverð og þeirrar staðreyndar að að lokum klárast þessi óendurnýjanlega auðlind. Sjóðurinn er líka sparnaður vegna komandi kynslóða. Þá óttuðust Norðmenn líka afleiðingar þess ef þessir peningar rynnu strax í fjárfestingar og framkvæmdir sem gæti leitt til verðbólgu og haft slæm áhrifa á efnahagslífið.  Sjóðurinn stendur nú í 103 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Fjármálaráðherra fundaði í byrjun árs í fyrra með norska fjármálaráðuneytinu og norska ollíusjóðnum til að afla sér upplýsinga um starfsemi hans, hlutverk, fjármögnun og ráðstöfun.

Allt að 20 milljarðar

Fjármálaráðherra upplýsti líka að hann hefði kynnt málið fyrir fulltrúum flokkana á þingi og stuðningur væri meðal þeirra um stofnun sjóðsins. Hann hefði lagt til í ríkisstjórn að tveir hópar yrðu skipaðir til að vinna að málinu. Annars vegar þriggja manna hópur til að undirbúa frumvarp og hins vegar hóp skipuðum fulltrúum allar flokka til að til að veita álit á vinnu frumvarpshópsins. Hann stefndi að því að leggja fram frumvarp í vetur. Ekkert varð úr því meðal annars vegna þess að efnt var til kosninga í haust.

Það er verið að tala um að arður af Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í eigu ríkisins renni í sjóðinn. Eftir mestu er að slægjast hjá Landsvirkjun. Á ársfundi Landsvirkjunar í vor upplýsti Hörður Arnarson forstjóri að hagurinn hefði vænkast mikið vegna niðurgreiðslu skulda, lægri vaxtakostnaðar og fleiri þátta

„Að okkar mati við núverandi aðstæður teljum við að arðgreiðslurnar geti aukist eftir tvö til þrjú ár og gætu á nokkrum árum orðið 10 til 20 milljarðar á ári," sagði Hörður.

Ef þetta gengur eftir er ljóst að 20 milljarðar á ári gætu fljótt orðið að digrum sjóði. 

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi