Gæslan flaug lágt um Gilsfjörð í eftirlitsferð

16.07.2017 - 00:57
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug lágflug meðfram ströndinni inn eftir öllum Gilsfirði og út aftur nú síðla kvölds, að sögn íbúa við fjörðinn, sem hafði samband við fréttastofu og furðaði sig á aðförunum. Sagði hann þyrluna vart hafa verið hærra á lofti en 20 eða 30 metra yfir sjávarfletinum. Í fyrstu hélt hann að slys hefði orðið en komst fljótlega að því að svo var ekki. Snorri Hrafnkelsson hjá Landhelgisgæslunni segir þyrluna hafa verið við almenn eftirlitsstörf og hafa farið víða í kvöld.

Aðspurður, hvort þyrlumenn sæju eitthvað til í því rökkri sem nú er skollið á sagði Snorri fullkominn tækjabúnað um borð sem gerði mönnum kleift að sjá það sem þeir þyrftu að sjá. Aðspurður hvort verið væri að leita að landhelgisbrjótum uppi í landsteinum, ólöglegum laxanetum eða einhverju sérstöku öðru, og þá hverju, ítrekaði Snorri að um reglubundið eftirlit væri að ræða og ekkert meira um það að segja. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV