Fyrstu tilvikin komu upp á hádegi í gær

11.08.2017 - 08:39
Mynd með færslu
Unnið að sótthreinsun á sjúkrabíl í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.  Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
175 skátar sem dvöldu í Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn dvelja nú í fjöldahjálparmiðstöð í Grunnskólanum í Hveragerði vegna magakveisu. Staðfest er að 62 hafi veikst. Fyrstu tilvikin komu upp á hádegi í gær. Um klukkan níu um kvöldið var læknir kallaður til.

Skátarnir eru breskir og bandarískir og á aldrinum 10 til 25 ára. „Fyrstu tilvikin komu upp á hádegi í gær. Þá var eitt og eitt tilvik,“ segir Hermann Sigurðarson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Klukkan 17:00 voru tilvikin orðin fimm eða sex og þá var haft samband við lækni. „Svo fór þetta stigvaxandi. Klukkan níu var viðbragðskerfi sett í gang.“ Talið er að veikindin stafi af nóróveiru.

Nokkur tilvik á alþjóðlega skátamótinu

Veikindi af svipuðum toga komu upp á alþjóðlega skátamótinu sem haldið var hér á landi fyrr í sumar. „Þá vorum við allt öðruvísi búin. Við vorum á tólf stöðum um landið á fyrri hluta mótsins og í samstarfi við Almannavarnir, Rauða krossinn og björgunarsveitir.“ Á síðari hluta mótsins komu tilvikin upp. „Þá rákum við okkar eigin heilsugæslu á Úlfljótsvatni. Þar voru læknar og hjúkrunarfræðingar svo að þessi tilvik voru meðhöndluð af fagmennsku.“

Funda með Heilbrigðiseftirliti Suðurlands

Áætlað var að viðbragsteymi Almannavarna myndi funda með sóttvarnalækni um stöðuna klukkan sjö í morgun en þeim fundi hefur verið frestað þar til síðar í dag. Fulltrúar bandalagsins funda nú klukkan níu með fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Dagný Hulda Erlendsdóttir