Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið

14.09.2017 - 12:24
Fjármálaráðherra segir meginverkefni ríkisstjórnarinnar að varðveita góðan árangur í efnahagsmálum og stuðla að jafnvægi í ríkisrekstri. Þingmaður Vinstri grænna segir stjórnvöld með fjárlagafrumvarpinu viðhalda fátækt aldraðra og öryrkja.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs við upphaf fundar á Alþingi nú fyrir hádegi. Hann segir það endurspegla aðhald og jafnvægi í ríkisrekstrinum. Þingmaður Vinstri grænna segir ríkisstjórnina viðhalda fátækt með frumvarpinu og engan veginn standa við loforðin.

Ráðherra bendir á kosti þess að með nýju verklagi, það er að samþykkja fyrst fjármálaáætlun og stefnu, megi afgreiða fjárlög fyrr og því geti ríkisstofnanir fyrr gert áætlanir. Hann segir kaupmátt heimila aldrei hafa verið hærri, skuldir hafi lækkað og áfram verði unnið gegn skattaundanskotum og svörtu hagkerfi. Nú sé verðbólga lítil, vaxtastig hafi lækkað, atvinnuleysi í lágmarki og kaupmáttur mikill. Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar jafnvægi og framsýni eru ekki úr lausu lofti gripin.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði hvenær væri tími til kominn að leiðrétta kjör þeirra verst settu. Frumvarp ríkisstjórnarinnar viðhaldi fátækt. – „En hvenær er tími til að leiðrétta ef ekki nú þar sem samfelldur hagvöxtur var 7,2 prósent í fyrra meira en í nokkru örðu OECD-ríki en við hverju er að búast þegar forsætisráðherra landsins segir að það sé stórkostlegt afrek að hækka laun þessa hóps í 300 þúsund? – Nei, virðulegur forseti. Ríkisstjórnin er með þessum aðgerðum sínum, sem eru í þessu frumvarpi gagnvart stórum hluta þessa hóps að viðhalda fátækt,“ sagði Bjarkey.

Fyrsta umræða um fjármálafrumvarpið heldur áfram í allan dag og á morgun þegar einstaka ráðherrar sitja fyrir svörum.