Fyndnasta bók Nabokovs í íslenskri þýðingu

13.08.2017 - 10:13
Skáldsagan Pnín eftir rússneska rithöfundinn Vladimir Nabokov er nú komin út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar, en bókin skipti höfundinn miklu máli á sínum tíma og skaut honum upp á himnafestingu bandarískra bókmennta. Hún þykir fyndasta bók höfundarins, býður upp á leiftrandi stílsnilld og forvitnilegt samband sögumanns og aðal söguhetjunnar.

Heldur óheppinn náungi

Söguhetjan, rússneski aðstoðarprófessorinn Tímófej Pnín sem starfar í bandarískum háskóla, er heldur óheppin týpa. Hann er lítið fyrir augað, kringluleitur, sköllóttur með hringlaga spangargleraugu og samanherpt andlit. En gáfaður er Pnín þó hann eigi erfitt með að tjá sig á tungumáli nýja heimalandsins og nemendur hans skilji yfirleitt ekkert hvert hann er að fara. Og allt frá fyrstu kynnum vita lesendur að hann er eins konar andhetja því hann er nefnilega í vitlausri lest í upphafi sögu.

Pnín virkar dálítið eins og rangur maður á röngum stað á röngum tíma. Eða kannski er hann hárréttur maður og þá er allt hitt bara einhvern veginn kolrangt.

Mikilvæg bók

Sagan af Pnín er þrettánda skáldsaga Nabokovs og sú fjórða sem kom út á ensku árið 1957. Hún kemur nú út í fyrsta sinn á íslensku í fyrirtaks þýðingu Árna Óskarssonar.

Bókin var þýðingarmikil fyrir Valdimir Nabokov. Hún var næst í röðinni á eftir hinni heimsfrægu Lolitu sem kom út tveimur árum áður í París en það var samt sagan af Pnín sem hóf höfundinn til vegs og virðingar í bandarísku bókmenntalandslagi. Bókin er öðrum þræði lýsingin á bandarísku háskólasamfélagi á dögum kalda stríðsins og því hvernig það er að vera dálítið utanveltu í nýju og framandi landi.

Upphaflega framhaldssaga

Sagan kom reyndar fyrst út sem framhaldsaga í í bandaríska tímaritinu New Yorker sem í dag er tæplega vikublað, ef svo má segja, gefið út 47 sinnum á ári en fimm tölublöð eru ætluð tveimur vikum á ári hverju.

Allt frá stofnun árið 1925 var það ætlun stofnenda New Yorker, hjónanna Harolds Ross og Jane Grant, að gefa út húmorískt blað sem væri samt smekklegt. Fljótlega fór New Yorker þó að skipta miklu máli í samhengi alvarlegri bókmennta í Bandaríkjunum og listinn yfir höfunda sem hafa frumbirt texta sína í blaðinu í gegnum tíðina er langur og glæsilegur.

Segja má að texti Nabokovs um Pnín passi einkar vel við upphaflegt markmið New Yorker um sambræðing húmors og smekklegheita. Og þessu tvennu, húmornum og stílsnilldinni, skilar þýðing Árna Óskarssonar vel til íslenskra lesenda. Í sjö köflum bókarinnar eru teknar ýmsar fettur og brettur, hlaupið er fram og aftur í tíma en alltaf komum við aftur að þessum brjóstumkennanlega, broslega og utangátta háskólaprófessor sem enn sigrar hjörtu lesenda 60 árum eftir útkomu bókarinnar.

Lesið var úr þýðinginu Árna Óskarssonar á Pnín eftir Valdimir Nabokov í Tengivagninum á Rás 1 og sagt nánar frá bókinni. Innslagið má heyra hér að ofan. Tónlistin í innslaginu er úr Djass-svítu nr. 1 eftir rússneska tónskáldið Dimitri Shostakovich. 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Tengivagninn