Frumflytur trompetverk á ströndinni í Vík

13.08.2017 - 11:33
Mynd með færslu
Steinunn Þórarinsdóttir (vinstri), Deborah Pritchard og Simon Debruslais á ströndinni í Vík.  Mynd: Úr einkasafni
Í dag klukkan 15 mun breski trompetleikarinn Simon Desbruslais frumflytja einleiksverkið VOYAGE/FÖR eftir tónskáldið Deboruh Pritchard á ströndinni í Vík í Mýrdal við listaverkið FÖR sem er eftir Steinunni Þórarinsdóttur.

Tónverkið var samið sérstaklega fyrir Desbruslais og var innblásið af listaverki Steinunnar sem er staðsett bæði í Vík og í Hull í Bretlandi. Verk Steinunnar var afhjúpað 2006 og vísar til 1000 ára sameiginlegrar sögu Ísland og Bretlands og er til minningar um breska sjómenn sem farist hafa við Íslandsstrendur. 

Samstarf Steinunnar, Simon og Deboruh hófst snemma árs 2016 þegar bresku listamennirnir komu til Íslands til að upplifa verkið í Vík í Mýrdal og kynnast höfundi þess og Íslandi. Fyrri hluti tónverksins var fluttur 1. maí við listaverkið í Hull í tengslum við tónlistarhátíð John Grant, North Atlantic Flux, en hún var hluti af Hull 2017 dagskránni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Tónskáldið og trompetleikarinn í íslensku veðurblíðunni.

Tónverkið verður flutt í fyrsta sinn í heild sinni á ströndinni í Vík en það endurspeglar að sögn höfundar vináttu, samskipti og hið ólíka umhverfi Hull og Víkur í Mýrdal eins og listaverk Steinunnar gerir. Hluti af tónverkinu eru ljóð eftir breska ljóðskáldið Cliff Forshaw sem voru pöntuð sérstaklega af borgarstjórn Hull árið 2006 þegar listaverkið var afhjúpað, en skáldið sjálft mun flytja ljóðin á ströndinni í Vík. 

Eftir flutninginn á verkinu verður gestum boðið til móttöku við nýopnað safn um skiptið Skaftfelling sem sigldi til Bretlands í 20 ár, þar á meðal öll stríðsárin, en áhöfn þess bjargaði þá fjölda mannslífa.   

Tónskáldið við Víkur-helming verksins FÖR, sem varð henni innblástur að tónverkinu sem flutt verður í dag.