Fríða og dýrið slá aðsóknarmet

20.03.2017 - 00:46
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Disneymyndin Fríða og dýrið sló aðsóknarmet í kvikmyndahúsum vestanhafs þar sem hún var frumsýnd um helgina. Talið er að hún hafi halað inn um 170 milljónum dala fyrstu þrjá dagana sem hún var í sýningu, sem er met í marsmánuði í Bandaríkjunum. Að sögn AFP fréttastofunnar átti kvikmyndin Batman v. Superman: Dawn of Justice fyrra aðsóknarmet þegar áhorfendur greiddu samanlagt 166 milljónir dala fyrir miða á myndina.

Uppselt var í alla sali að sögn Fandango kvikmyndasíðunnar, en hún var sýnd í eitt þúsund kvikmyndasölum í borgum Bandaríkjanna. Aðsóknin þýðir að myndin náði sjöundu tekjuhæstu frumsýningarhelgi sögunnar. Kostnaður við myndina var um 300 milljónir dala og telja sérfræðingar að hún verði fljót að svara kostnaði.

Fríða og dýrið veltu risaapanum Kong úr efsta sætinu. Tekjur Kong: Skull Island voru um 28,9 milljónir dala um helgina og eru miðasölutekjur hennar frá frumsýningu um 110 milljónir. Logan varð í þriðja sæti með um 17 og hálfa milljón dala, og hefur sankað að sér 184 milljónum þær þrjár vikur sem myndin hefur verið í sýningu.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV