Framtíð tveggja grunnskóla í óvissu

14.05.2016 - 14:39
Framtíð tveggja grunnskóla á Vestfjörðum verður í nokkurri óvissu þegar fækkar til muna í skólunum í vor. Kennari segir sveitaskóla sem þessa lykilatriði fyrir framtíð byggða.

Tveir nemendur verða eftir í Birkimelsskóla á Barðaströnd þegar þrír af fimm nemendum útskrifast í vor. Skólanum verður ekki lokað en fyrirkomulagi grunnskóladeildarinnar verður breytt. Kristján Arnar Ingason er deildarstjóri í Birkimelsskóla: „Næsta haust verður það þannig að deildarstjórinn hérna mun keyra yfir á Patreksskóla, þegar veður og aðstæður leyfa en annars mun hann kenna þeim hér við skólann.“ Um fjörutíu kílómetrar eru frá Birkimel yfir á Patreksfjörð.  Á þeirri leið er Kleifaheiði og verður notast við fjarkennslubúnað þegar heiðin er ófær. 

Í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi lítur út fyrir að fjölskyldur fjögurra af fimm nemendum flytji burt í sumar: „Mér finnst það ekki boðlegt að vera með eitt barn í skólanum, barnsins vegna. Það gæti ábyggilega fengið bestu þjónustu eða bestu kennslu og bestu þjónustu í heimi en það myndi vanta uppá félagslega þáttinn. Við erum ennþá að leita leiða til að bjarga málunum og til að halda skólanum opnum.“ 

Úr Árneshreppi er ekki hægt að keyra í næsta skóla yfir vetrartímann. Næstu skólar eru í um 100 kílómetra fjarlægð og frá janúar fram í mars er ekki mokað í hreppinn. Því gæti svo farið að skólanum verði lokað í fyrsta sinn í 90 ár. 

„Svona skólar gegna mjög mikilvægu hlutverki ekki bara fyrir daginn í dag heldur næstu tíu árin, tuttugu árin þrátíu árin fyrir byggðina. Vegna þess einfaldlega að ef það er ekki grunnskóli, grunnþjónusta á svæðinu þá er engin ástæða til flytja hingað,“ segir Kristján Arnar.