Framtíð hundraða þúsunda gæti verið í uppnámi

04.09.2017 - 10:01
epa06157013 US President Donald J. Trump addresses the crowd at a campain rally in Phoenix, Arizona, USA, 22 August 2017. Trump delivered the speech one day after a news conference in which he announced his strategy for the war in Afghanistan, and in the
Donald Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í Phoenix í Arizona, 22.ágúst.  Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti áformar að afnema DACA – löggjöf sem gerir börnu ólöglegra innflytjenda kleift að fara í nám og sækja um atvinnuleyfi. Frá þessu greina fjölmiðlar vestanhafs í dag.

Stefnan var tekin upp árið 2012, í forsetatíð Baracks Obama, og heitir DACA. DACA snýr að réttindum fólks sem kom til Bandaríkjanna án tilskilinna leyfa, áður en það varð sextán ára. DACA veitir þessum innflytjendum möguleika á að sækja um dvalarleyfi til tveggja ára, sem hægt er að endurnýja, og gerir því þannig kleift að stunda nám eða fá atvinnuleyfi. Talið er að DACA snerti líf um 800 þúsund íbúa í Bandaríkjunum.

Donald Trump hét því í kosningabaráttu sinni, að afnema DACA þegar í stað. Vefurinn Politico greindi fyrst frá því að forsetinn hafi ákveðið að nema stefnuna úr gildi. Samkvæmt heimildarmönnum Politico komu samstarfsmenn forsetans saman til fundar í gær, til að skipuleggja hvernig ákvörðun forsetans yrði útfærð. Hann hyggist tilkynna hana á morgun, þriðjudag. Afnámið taki þó ekki gildi fyrr en að sex mánuðum liðnum. Því gefist tækifæri til að setja önnur lög í millitíðinni, um stöðu barna ólöglegra innflytjenda.

New York Times er ekki jafn afgerandi í frétt sinni. Forsetinn sé að íhuga að binda enda á DACA en kunni enn að skipta um skoðun.

Fyrirhugað afnám DACA hefur mætt harðri andstöðu jafnt andstæðinga Trumps sem samflokksmanna. Paul Ryan, Repúblikani og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hvatti Trump í síðustu viku til að nema DACA ekki úr gildi. Afnám DACA gæti sett framtíð fjölda ungs fólks í uppnám. Þá hafa forsvarsmenn bandarískra stórfyrirtækja á borð við Facebook, Marriott, Microsoft og General Motors varað við því að nema DACA úr gildi. Það kunni að hafa alvarlegar siðferðilegar og efnahagslegar afleiðingar.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV