Fram af botninum eftir sigur á Val

18.03.2017 - 16:54
Fram er komið af botni Olís-deildar karla eftir sigur á Val á heimavelli sínum í Safamýri í dag, 20-18. Fram spilaði frábæra vörn í leiknum og skoruðu Valsmenn aðeins sjö mörk í síðari hálfleik. Með sigrinum fer Fram í 9. sæti deildarinnar og eru með 18 stig. Þeir hafa sætaskipti við Akureyri sem nú sitja á botninum.

Valsmenn höfðu frumkvæðið í framan af fyrri hálfleik en heimamenn í Fram leiddu að honum loknum, 12-11. Í síðari hálfleik létu Frammarar kné fylgja kviði og náðu forystu sem þeir létu ekki af hendi.

Arnar Birkir Hálfánsson átti fyrirtaks leik í liði Fram og skoraði 7 mörk. Andri Þór Helgason skoraði 6 mörk. Sigurður Ólafsson varði 16 skot í marki Vals en það dugði ekki til í dag. Anton Rúnarsson var atkæðamestur Valsmanna með 6 mörk.

Fram er nú stigi á eftir Stjörnunni sem situr í 8. sæti deildarinnar. Átta efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina en tvö neðstu liðin falla niður í 1. deild.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður