Frakkar með stórsigur í fyrsta leik HM

11.01.2017 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Ríkjandi heimsmeistarar Frakka hófu titilvörn sína af krafti gegn Brasilíu í opnunarleik HM í kvöld.

Liðin leika í A-riðli ásamt Japan, Póllandi, Rússlandi og Noregi. Frakkar byrjuðu leikinn vel og komust í 4-1 eftir um fimm mínútna leik. Munurinn jókst jafnt og þétt þegar leið á fyrri hálfleikinn og þegar flautað var til leikhlés var staðan 17-7 heimamönnum í vil. Hinn fertugi Thierry Omayer, markvörður Frakka, varði sextán skot í fyrri hálfleiknum. Þjálfari Frakka, Didiert Dinart, hvíldi sína bestu menn í síðari hálfleiknum en það hafði lítið að segja um gang mála. Frakkar héldu áfram að breikka bilið og þegar lokaflautið gall var staðan 31-16.

Fimmtán marka sigur ríkjandi heimsmeistara í fyrsta leik og ljóst að Frakkar ætla sér stóra hluti á mótinu. Vincent Gerard var valinn maður leiksins en hann kom í markið fyrir Omayer í síðari hálfleiknum. Hann varði 12 skot en það tók Brasilíumenn heilar sjö mínútur að koma boltanum loks framhjá honum.

Ísland hefur leik gegn Spánverjum á morgun í B-riðli og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á RÚV kl. 19.35. 

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður