Forseti Keníu vill að fólk „kjósi friðsamlega“

08.08.2017 - 03:56
Erlent · Afríka · Kenía
epa06124770 The leader of Kenya's ruling Jubilee coalition and incumbent President Uhuru Kenyatta greets his supporters as he leaves the campaign rally in Nairobi, Kenya, 04 August 2017. Kenya will hold general elections on 08 August where Kenyatta
 Mynd: Dai Kurokawa  -  EPA
Uhuru Kenyatta, forseti Keníu, hvatti landa sína í sjónvarpsávarpi í gær til að fjölmenna á kjörstað í dag, þriðjudag, en hvatti til að svo yrði gert með friðsamlegum hætti. Keníumenn ganga til kosninga í dag og hefur loft verið lævi blandið unanfarna daga. Ásakanir um kosnigasvik eru ekki óalgengar í landinu og ofbeldisalda sem reið yfir landið í kjölfar kosninga fyrir um tíu árum enn í fersku minni. Langar raðir höfðu myndast fyrir utan kjörstaði fyrir opnun þeirra, segir í frétt BBC.

Hinn 55 ára Uhuru Kenyatta er sonur fyrsta forseta landsins, Jomo Kenyatta, og býður sig fram til annars kjörtímabils í embættis gegn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Raila Odinga. Stuðningur við þá mælist svipaður í könnunum. Báðir frambjóðendur hafa vandað orðaval sitt rétt fyrir kosningar og reynt að stilla æsingaræðum í hóf. Hins vegar hefur Odinga ekki hikað við að viðra ótta sinn um að í landinu verði reynt að fremja kosningasvik.

Sjá frétt BBC hér.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að kosningarnar væru á mánudegi en það hefur verið leiðrétt.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV