Forsetakosningar í Kenía í dag

08.08.2017 - 18:17
epa06124770 The leader of Kenya's ruling Jubilee coalition and incumbent President Uhuru Kenyatta greets his supporters as he leaves the campaign rally in Nairobi, Kenya, 04 August 2017. Kenya will hold general elections on 08 August where Kenyatta
 Mynd: Dai Kurokawa  -  EPA
Forsetakosningar eru í Kenía í dag. Mikill viðbúnaður lögreglu og hers er um allt land, en óttast er að blóðugar óeirðir brjótist út fari svo að ásakanir um kosningasvindl fari á flug.

Átta eru í framboði til embættis forseta í Kenía, en baráttan stendur þó einungis á milli tveggja frambjóðenda, sitjandi forseta, Uhuru Kenyatta og hans helsta andstæðings Raila Odinga.

Kenyatta er sonur fyrsta forseta Kenía, Jomo Kenyatta. Hann var fyrst kosinn forseti fyrir fjórum árum og lagði þá Odinga að velli, nánast á sjónarmun, en Odinga freistar þess nú í fjórða, og líklega síðasta, sinn að verða forseti landsins. Reyndar hafa fjölskyldur þeirra eldað grátt silfur allt frá sjálfstæði Kenía, árið 1963, feður þeirra börðust hlið við hlið fyrir sjálfstæði landsins frá Bretum en urðu síðar svarnir fjendur.

Langar raðir mynduðust á kosningastöðum víða í landinu í dag og beið fólk þolinmótt í nokkrar klukkustundir eftir því að fá að greiða atkvæði. 19 milljónir af 48 milljónum íbúa eru skráðir kjósendur, helmingur þeirra er undir 35 ára. 

Í Kenía virðist sem áhyggjur manna snúist ekki aðallega um hvor frambjóðenda vinni kosningarnar, þær snúast meira um hvernig stuðningsmenn þess sem tapar bregðast við ósigrinum. Engin eftirmál urðu eftir kosningarnar fyrir fjórum árum, en annað var uppi á teningnum árið 2007. Þá brutust út blóðugar óeirðir, 1100 manns týndu lífi og 60.000 manns misstu heimili sín. Fréttaskýrendur telja því að næstu dagar verði prófsteinn á lýðræði í Kenía. 180.000 lögreglu- og hermenn eru í viðbragðsstöðu um allt land, en úrslit gætu legið fyrir þegar í fyrramálið.

Stuðningsmenn Kenyatta benda á að í stjórnartíð hans hafi mikil uppbygging innviða átt sér stað í Kenía, og að hagvöxtur hafi verið yfir fimm prósent á ári, sem sé meira en í flestum öðrum ríkjum Afríku. Hins vegar hefur verð á matvælum rokið upp, atvinnuleysi er mikið og stór spillingarmál hafa skotið upp kollinum.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV