Formaður starfsmannafélags dró sér 8 milljónir

05.09.2017 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákært hálffimmtuga konu fyrir að draga sér 9,3 milljónir króna af reikningi starfsmannafélags á árunum 2011 til 2015. Konan var formaður starfsmannafélags í fyrirtæki á Egilsstöðum á þessum tíma, og samkvæmt ákærunni dró hún sér féð í 111 millifærslum eða úttektum og nýtti það í eigin þágu.

Framan af, frá því í september 2011 og þar til í maí 2013, tók konan peninginn yfirleitt út í reiðufé. Það gerði hún alls tíu sinnum, 60 til 230 þúsund krónur í hvert skipti. Í desember 2012 hóf hún jafnframt að millifæra af reikningi starfsmannafélagsins inn á sína eigin, á bilinu 3.000 til 230.000 krónur í hvert sinn, og samkvæmt ákærunni hélt hún því áfram til ársloka 2015.

Starfsmannafélagið gerir kröfu um að konan greiði því 9,3 milljónir króna í bætur, auk vaxta og annars kostnaðar.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV