Fordæmi fyrir lokun þinghalds að hluta

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Dómstólar hafa ekki upplýsingar um hversu oft hluti þinghalds er fyrir luktum dyrum eins og gerðist í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Ingimundur Einarsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir þó ekkert óeðlilegt að gripið sé til þessara ráðstafana og heimild sé fyrir því í lögum. Það sé þó alltaf háð mati dómara.

Ingimundur segir að lokun réttarhalda sé yfirleitt á grundvelli þess að upplýsingarnar sem fram koma eigi ekki erindi við almenning, eða að upplýsingar komi fram sem komi illa við brotaþola eða aðstandendur. 

Aðrir sem fréttastofa hafa rætt við hafa ekki nákvæmar upplýsingar um hversu oft þetta sé gert, en það sé þó ekki algengt að hluta þinghalds sé lokað. Algengara sé að öllu þinghaldi í máli sé lokað í heild sinni, þá yfirleitt til þess að vernda brotaþola.

Fréttastofu er kunnugt um tvö tilvik þar sem þinghaldi var lokað að hluta. Annað tilvikið er þegar maður var ákærður og dæmdur fyrir að hafa hrist barn sitt svo harkalega að það lést. Þá voru skýrslutökur yfir móður barnsins fyrir luktum dyrum.

Hitt tilvikið var mál Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar en þeim var gefið að sök að hafa banað samfanga sínum. Þar lokaði lögreglan hluta þinghalds þar sem hún misskildi skilaboð frá dómara. 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV