Fordæmdi framgöngu Norður-Kóreustjórnar

11.08.2017 - 21:47
epa06133152 Canadian Foreign Minister Chrystia Freeland (L) gestures as she speaks with Chinese Foreign Minister Wang Yi (not pictured) during their meeting at the Ministry of Foreign Affairs in Beijing, China, 09 August 2017.  EPA/WU HONG / POOL
 Mynd: EPA  -  EPA POOL
Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, skoraði í kvöld á stjórnvöld í Norður-Kóreu og Bandaríkjunum að draga úr æsingum sín á milli og reyna að minnka spennuna sem hlaupin er í samskipti þeirra. Hún færdæmdi líka Norður-Kóreustjórn fyrir kjarnorkuvopnaáætlun sína og yfirlýsingar henni tengdar. Freeland sagði að gjörðir Norður-Kóreumanna væru ógn við frið, bæði við Kóreuskaga og á heimsvísu.

Kanadíski utanríkisráðherrann ítrekaði stuðning Kanadastjórnar við Bandaríkin og sagði að þegar Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefði í hótunum við Bandaríkin væru Kanada líka ógnað.

Freeland sagði að kanadísk stjórnvöld myndu leggja sitt af mörkum til að draga úr spennu í samskiptum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. Hún ræddi við Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, á sunnudag og við Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, á miðvikudag. Hún sagðist í báðum samtölum hafa lagt áherslu á að norðurkóresk stjórnvöld yrðu að sjá villu síns vegar, og stefnu sem gæti kallað mikla eyðileggingu yfir bæði Norður-Kóreu og heiminn.

Í ritstjórnargrein kínverska dagblaðsins Global Times í dag sagði að Kínverjar myndu grípa til vopna ef Bandaríkjamenn réðust gegn Norður-Kóreu en jafnframt að norðurkóresk stjórnvöld yrðu ein á báti ef þau gerðu eldflaugaárás á herstöðvar Bandaríkjanna. Dagblaðið Global Times er álitið málpípa stjórnvalda í Kína. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði líka frá því á Twitter í dag að Bandaríkjaher væri tilbúinn til gagnárásar á Norður-Kóreu ef þarlend stjórnvöld gerði eitthvað óráðlegt.