Fordæmalaus útbreiðsla lygafrétta

11.01.2017 - 15:46
epa04976024 Russian President Vladimir Putin speaks at the 7th annual VTB Capital 'Russia Calling!' Investment Forum in Moscow, Russia, 13 October 2015. The forum promotes strategic investment into Russian economy.  EPA/SERGEI KARPUKHIN/POOL
Vladimir Pútín Rússlandsforseti.  Mynd: EPA  -  REUTERS POOL
Í Þýskalandi er verið að rannsaka fordæmalausa útbreiðslu upploginna frétta á sama tíma og fréttir berast af áætlunum Rússa um að hafa áhrif á kosningarnar í Þýskalandi síðar á þessu ári. Útbreiðsla lygafrétta hefur aukist gríðarlega og lýðræði á að margra mati undir högg að sækja. Svíar saka Rússa um áróðursstríð og lygaherferð til að grafa undan lýðræðnu.

Virtasta stofnun Svíþjóðar í utanríkismálum sakar Rússa um að nota falskar fréttir, fölsuð skjöl og rangfærslur sem þátt í samræmdri herferð til að hafa áhrif á almenningsálitið og ákvörðunartöku í landinu. Stofnunin segir að ítarleg rannsókn sýni að Svíþjóð hafi verið skotmark víðtækra aðgerða til að draga úr möguleikum stjórnvalda til að fá stuðning almennings við stefnu sína. Rannsóknin sýni að Rússar hafi notað villandi skýrslur, inngrip rússneskra stjórnmálamanna í innanríkismál Svíþjóðar og aðrar leynilegar aðferðir til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í landinu. Upplognar fréttir og fölsuð gögn hafi gegnt lykilhlutverki í þessari herferð Rússa.

Öryggisstofnun Þýskalands hefur staðfest að í netárás á dögunum gegn Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi verið beitt sams konar aðferðum og þegar brotist var inn í tölvukerfi þýska þingsins. Sú árás var rakin til rússneska netárásahópsins APT28. Öryggisstofnunin segir að rússnesk áróðurstæki og gríðarlegt fjármagn sé notað til að koma á framfæri óhróðri og lygum til að grafa undan stöðugleika í Þýskalandi.

epa05431384 US Republican Presidential candidate Donald Trump addresses the convention crowd with his wife Melania Trump after her remarks during the first day of the 2016 Republican National Convention at Quicken Loans Arena in Cleveland, Ohio, USA, 18
 Mynd: EPA  -  EPA

Rússar neita öllum ásökunum um netárásir sem beinist gegn vestrænum ríkjum og á mánudag fordæmdu þeir leyniþjónustuskýrslu þar sem fram kemur að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar til að hygla Donald Trump.

Steffen Seibert, talsmaður stjórnvalda segir að Þjóðverjar ætli að nota allar mögulegar aðferðir til að rannsaka útbreiðslu falskra frétta á Netinu og besta leiðin sé aukið gagnsæi. Hann segir að fjöldi lygafrétta sé margfallt meiri en nokkru sinni fyrr. Martin Schaefer, talsmaður utanríkisráðuneytisins segir að þessar netárásir séu teknar mjög alvarlega og allt verði gert til að koma í veg fyrir þær í Þýskalandi. 

Fylgst verður sérstaklega með fréttum til að berjast gegn lygafréttum en margir óttast að það verði til þess að stjórnvöld verði sökuð um að hafa áhrif á fréttaflutning á kosningaári. Angel Merkel hefur gagnrýnt Rússa harkalega, einkum í Úkraínumálinu en hún vonast til þess að sigra í kosningunum og veðra kanslari fjórða kjörtímabilið í röð.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  DPA

Tékknesk stjórnvöld stofnuðu um áramót sérstaka stofnun til að berjast gegn upplognum fréttum, sérstaklega þeim sem fjalla um innflytjendur, sem fullyrt er að séu runnar undan rifjum Rússlandsstjórnar Vladimirs Pútíns. Stofnunin á að vinna gegn því að hægt verði að hafa áhrif á þingkosningarnar í Tékklandi síðar á árinu en fullyrt er að óhróðri og lygum hefur verið dreift til að grafa undan lýðræði í landinu. Embættismenn segjast sannfærðir um að Kremlverjar standi að baki mörgum tugum tékkneskra vefsíðna sem dreifa róttækum skoðunum, upplognum skýrslum og samsæriskenningum sem eigi að grafa undan stöðu Tékklands í vestrænni samvinnu.

Tomáš Prouza sem fer með Evrópumál fyrir tékknesku ríkisstjórnina segir að markmið Rússa sé að sá efasemdafræjum meðal þjóðarinnar um að lýðræði sé vænlegasta stjórntækið og að draga upp neikvæða mynd af Evrópusambandinu og NATO. Í Tékklandi eru 45 þúsund Rússar og rússneska sendiráðið það langfjölmennasta í landinu. Tékknesk stjórnvöld eru ekki í vafa um að Rússar standi að baki þessum áróðri og undirróðri. 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Upplognar fréttir eru vandamál í velflestum ríkjum og víða hefur verið brugðist til varna. Þær léku stórt hlutverk í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og flestar slíkar fréttir komu Donald Trump til góða. Kannanir þar sýndu að 75 prósent fullorðinna trúðu á sannleiksgildi þeirra fölsku frétta sem þeim voru sýndar. Upplýsingarisarnir Google og Facebook hafa verið gagnrýndir harkalega í þessu samhengi en báðir segjast vera að vinna að því að útrýma lygafréttum og koma í veg fyrir dreifingu þeirra. Síður sem dreifa hreinræktuðum lygum hafa verið sviptar auglýsingatekjum. Mark Zuckerberg segir þó fjarstæðu að slíkar fréttir hafi haft áhrif á bandarísku forsetakosningarnar. 

Vefsíður eru vísvitandi notaðar til að dreifa upplognum fréttum, blekkingum, áróðri, óhróðri, lygum og samsæriskenningum og samfélagsmiðlar eru notaðir til að auka dreifingu og magna áhrifin. Fjölmörg dæmi er um þetta um allan heim og þessar síður hafa verið raktar til Rússlands, Makedóníu, Rúmeníu og Bandaríkjanna. Þetta hefur verið kallaður sálfræðihernaður eða netárásir sem margir hafa sagt beinast gegn lýðræðinu. Stofnanir Evrópusambandsins hafa til að mynda talað um sýndarfréttaveitur og nettröll til að dreifa áróðri til að draga úr trausti fólks til lýðræðislegra gilda í samfélaginu.

epa05072405 Russian President Vladimir Putin speaks during his annual news conference in Moscow, Russia, 17 December 2015.  EPA/SERGEI CHIRIKOV
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.  Mynd: EPA

Þess ber að geta að Bandaríkin eru ekki barnanna best í svona hernaði. Prófessor Marc Trachtenberg segir í Foreign Policy að hneykslun Bandaríkjamanna á framferði Rússa sé barnaleg og merki um tvöfallt siðgæði. Hann segir að Bandaríkjamenn eigi ekki að vera andvaralausir eða áhugalausir um þetta framferði en þetta eigi hvorki að koma á óvart né sé þetta nýtilkominn fjandskapur að hálfu Rússa. Þvert á móti sé þetta dæmi um hegðun sem Bandaríkin hafi átt stóran þátt í að skapa og í raun hafi slík afskipti af innanríkismálum annarra þjóða verið sérgrein Bandaríkjanna í gegnum tíðina. Lykilatriði sé að bregðast rétt við, þannig að svona afskipti hafi ekki tilætluð áhrif.

Falskar fréttir og áróður er langt því frá nýjung í sögunni en með nútímatækni hefur þessi aðferð náð nýjum og áður óþekktum hæðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV