Fólk hefur játað ótrúlegustu hluti í stólnum

Gunnar Valdimarsson er einn fremsti húðflúrari heims en hann hefur tuttugu og þrisvar sinnum unnið til alþjóðlegra verðlauna og rekur í dag sína eigin stofu í Osló, þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum. Hans aðalsmerki eru andlitsmyndir en hann hefur flúrað þúsundir einstaklinga frá öllum heimsálfum.

Skyggnst verður inn í líf Gunnars í Ísþjóðinni með Ragnhildi Steinunni á sunnudag kl. 20.20. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.

Enginn annar kom til greina

Knattspyrnumenn íslenska landsliðsins eru margir hverjir orðnir vel blekmerktir eftir Gunnar en hann hefur flúrað þá Rúrik Gíslason, Aron Einar Gunnarsson, Elías Ómarsson, Arnór Ingvi Traustason og Emil Hallfreðsson. Emil segir að enginn annar en Gunnar hafi komið til greina þegar hann ákvað að fá sér sitt fyrsta húðflúr, sem er andlitsmynd af föður hans heitnum. Hann segist hafa verið örlítið stressaður hvernig útkoman yrði en sé afar ánægður.

Ekki eins og að mála mynd á vegg

Gunnar segir að starf flúrara sé töluvert erfiðara en fólk heldur, það fylgi því mikil ábyrgð að skila góðu verki. Hann segist aldrei vinna meira en níu klukkustundir á sama einstaklingi því þá sé bæði hann og viðskiptavinurinn orðinn þreyttur. „Fólk fattar ekki að þetta er ekki eins og að mála mynd á vegg. Þú getur ekki bara staðið upp, tekið pásu og hugsað þig um. Þetta þarf að klárast á ákveðnum tíma, það er auðvitað ekkert hægt að stroka út og húðin getur verið mismunandi”, segir Gunnar sem fær allt upp í 50 beiðnir um húðflúr á dag en biðlistinn er hálft ár.

Allir líkamspartar

Viðskiptavinir Gunnars eru jafn ólíkir og þeir eru margir og sumir trúa honum fyrir ótrúlegustu hlutum. „Fólk segir mér bara hvað sem er og oft er ég bara jæja. Fólk hefur játað glæpi, játað framhjáhöld og bara you name it”. Þegar hann er spurður út í furðulegustu líkamspartana sem hann hefur flúrað, svarar hann: „Svona í sjónvarpi allra landsmanna þá held ég að ég fari nú kannski ekki út í það allra skrýtnasta, en þegar maður er búinn að gera þetta svona oft þá eru það bara allir líkamspartar.“

Mynd með færslu
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni