Flóttafólki fjölgar sem snýr heim frá Danmörku

05.02.2017 - 18:24
epa05021885 A group of migrants is checking a departure board at Copenhagen Central Station, Denmark,  November 12, 2015. The group arrived earlier on 12 November 2015 from Hamburg in Germany. Instead of continuing to Sweden they decided to get off in
 Mynd: EPA  -  SCANPIX DENMARK
Í Danmörku fjölgar hælisleitendum sem kjósa sjálfviljugir að snúa aftur heim. Á sjötta hundrað hættu við að sækja um hæli í fyrra og héldu heimleiðis áður en dönsk yfirvöld höfðu tekið afstöðu til umsókna þeirra.

Marit Risdal, forstöðumaður búða fyrir hælisleitendur, segir að ungir karlmenn kjósi að snúa aftur heim eftir að þeim hafi borist fréttir af andláti, og þeirra sé þörf til að vera höfuð fjölskyldunnar heima fyrir. Veikindi í fjölskyldunni eru einnig algeng ástæða þess að hælisleitendur fara til síns heima. Sumir telja einnig að umsókn þeirra verði hafnað og hyggist yfirgefa heimkynnin á ný og reyna fyrir sér í öðru Evrópulandi en Danmörku. Öðrum reynist vistin í búðum fyrir hælisleitendur erfið.

Enn er ótalin algeng ástæða þess að fólk dregur hælisumsókn til baka. Jan Jørgensen, talsmaður Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar í Danmörku, segir að raunveruleikinn reynist oft vera annar en smyglarar eða aðrir töldu fólkinu trú um. Væntingarnar hafi ekki verið uppfylltar.

Árið 2015 völdu 243 að draga hælisumsókn til baka og héldu sjálfviljugir heim. Í fyrra voru þeir meira en tvöfalt fleiri eða 532.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV