Flokki Macrons spáð yfirburðasigri

18.06.2017 - 07:24
French President Emmanuel Macron leaves his house followed by bodyguards before voting in the final round of parliamentary elections, in the northern seaside town of Le Touquet, France, Sunday, June 18, 2017. French voters are choosing legislators for the
Emmanuel Macron heldur á kjörstað í morgunsárið, fylgd lífvarða og fjölmiðla.  Mynd: AP
Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Frakklandi, þar sem seinni umferð þingkosninga fer fram í dag. Allt bendir til þess að ársgamall flokkur nýkjörins Frakklandsforseta vinni yfirburðasigur. Skoðanakannanir benda til þess að allt að þrír af hverjum fjórum þingmönnum muni tilheyra flokki Macrons, En Marche, sem virðist ætla að hirða þingsæti af öllum flokkum, jafnt af hægri sem vinstri væng stjórnmálanna.

Talsmenn annarra flokka hafa varað mjög við afleiðingum þess, að stjórnarandstaðan verði of veik, þessa viku sem liðin er frá fyrri umferð kosninganna, en sá boðskapur virðist ekki hafa haft tilætluð áhrif. Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar voru á fimmtudag mun En Marche fá á bilinu 440 til 470 af þeim 577 þingsætum sem um er barist. Þetta gerist þrátt fyrir að flokkurinn fái langt undir helmingi allra greiddra atkvæða, raunar hlaut hann aðeins um þriðjung atkvæða í fyrri umferð kosninganna.

Ástæða þessarar skekkju er kosningakerfið franska, sem er allfrábrugðið því sem við eigum að venjast og byggir á einmenningskjördæmum. Macron lofar reyndar að breyta kerfinu til að draga úr þessum mikla muni sem er á stuðningi flokka meðal almennings og styrk þeirra á þingi. Búist er við að kjörsókn verði með dræmasta móti.