Flóð á Nýja Sjálandi

06.04.2017 - 08:03
This photo shows the flooded streets of the North Island town of Edgecumbe in New Zealand, Thursday, April 6, 2017. People used jet boats and tractors to help rescue about 2,000 residents after a river burst through a concrete levee Thursday, flooding
Edgecumbe á Nýja Sjálandi.  Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  Bay of Plenty Times
Öllum íbúum bæjarins Edgecumbe á Norðureyju á Nýja Sjálandi var gert að yfirgefa heimili sín vegna flóða, 2.000 manns. Eins manns er saknað. 

Bærinn er umlukinn vatni eftir að tvær ár flæddu yfir bakka sína og nær dýptin sums staðar allt að tveimur metrum að sögn breska útvarpsins BBC.

Mikil úrkoma hefur verið á þessum slóðum af völdum hitabeltislægðarinnar Debbie, sem fór yfir Ástralíu fyrir viku sem fellibylur. Blaðið New Zealand Herald segir að úrkoman hafi mælst 250 millimetrar undanfarna þrjá sólarhringa. 

BBC segir að ófært sé til bæjarins Kaikura, sem einangraðist eftir jarðskjálfta í nóvember. Nú stafi það af aur og grjótskriðum vegna úrkomunnar. Dregið hafi úr úrkomunni á Norðurey, en hvasst sé á Suðurey Nýja Sjálands.

Í Ástralíu eru menn enn að glíma við afleiðingar fellibylsins. Í bænum Rockhampton í Queensland eru götur víða ófærar vegna vatnselgs og vatn hefur flætt inn í hundruð húsa og íbúða.

Þar hafa verið miklir vatnavextir í Fitzroyánni, sem rennur hjá bænum, og var búist við að þeir gerðu illt verra þegar þeir næðu hámarki í nótt.

Var lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir í viðbragðsstöðu, en betur fór en á horfðist. Mikið hreinsunarstarf fer nú fram í Queensland og Nýja Suður-Wales eftir óveðrið sem þar gekk yfir.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV