„Flíspeysan verður að efni listamannsins“

15.02.2017 - 11:45
Prjónavesti, hillusamstæður, flíspeysur og yfirgefin verkfæri eru meðal þess sem ber fyrir augun á myndlistarsýningunni „Normið er ný framúrstefna“ í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar sýna 11 myndlistarmenn verk sem sprottin eru úr efnum og aðstæðum hversdagsins og fanga töfrana í því sem telst óvenjulega venjulegt.

„Virkni myndlistarinnar er þannig að hún  getur bent á eða umbreytt því sem er ofurhversdagslegt, þannig að við sjáum það allt í einu í fagurfræðilegu ljósi, og áttum okkur á því að það er ofboðslega fallegt og hugvíkkandi,“ segir sýningarstjórinn Heiðar Kári Rannversson.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós

Listamennirnir á sýningunni eru af ólíkum kynslóðum en uppistaðan í henni eru ný verk og nýleg sem er stillt upp við verk frá 10. áratug síðustu aldar. Sá áratugur skipar sérstakan sess í viðhorfi ungu kynslóðar nútímans við hversdagsleikann, sem sést best í tískufyrirbærinu „normcore“, þar sem hallærislega venjulegum stíl er hampað.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós
Sýningarstjórinn Heiðar Kári stendur í miðju eins verkanna á sýningunni.

Heiðar segir að hversdagsleikinn sé nokkuð vítt merkingarsvið og tengist hugmyndum um hið heimilslega. „Það birtist best í sýningunni sem attitúd gagnvart hversdagsleika samtímans. Flíspeysan til dæmis, hún verður að efni listamannsins í þessu verki, þessari flísrúst sem ég stend í. Þetta eru litir sem þú sérð ekki í neinu öðru samhengi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós