Flestir flúnir: Rændu systur hennar og frænku

08.08.2017 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnvöld í Venesúela ráðast að friðsömum mótmælendum og drepa þá og enginn er óhultur á götum úti í landinu. Þetta segir venesúelsk kona sem búsett er hér á landi. Nær öll fjölskylda hennar hefur flúið landið á síðustu árum.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna segir að öryggissveitir stjórnvalda í Venesúela hafi orðið að minnsta kosti 46 mótmælendum að bana síðustu mánuði. Sveitirnar ráðist inn í hús, handtaki fólk af handahófi, pynti það og beiti annarri illri meðferð. Stofnunin lýsti í dag vanþóknun sinni á ofbeldinu sem stjórnarandstæðingar í Venesúela séu beittir.  

Sonia Petros flutti frá Venesúela árið 2010 og hingað til lands í fyrra með íslenskum eiginmanni sínum. Hún heimsótti ættjörð sína síðast árið 2014. Þá varð hún fyrir áfalli vegna ástandsins í landinu og síðan hafi það versnað enn frekar. Öll yngri frændsystkini hennar hafa nú flúið land og flutt til nágrannaríkjanna.

„Á heimili mínu í Maracaibo eru bara eftir faðir minn, elsta systir mín og eiginmaður hennar. Þetta er það sem eftir er af fjölskyldu minni í Venesúela. Unga fólkið er farið, til að leita sér betri framtíðar,“ segir Sonia.

Enginn er óhultur á götum úti, það fengu systir hennar og frænka að reyna fyrir þremur árum þegar vopnaðir menn stöðvuðu bíl þeirra á miðri götu.

„Þeir beindu byssu að frænku minni og annarri að systur minni, þeir stálu bílnum og veskjum beggja. Ástandið er þannig að fólk er hvergi óhult. Það var ekki áliðið, klukkan var um hálf 9 að kvöldi. Það er ekki hægt að fara út, fólk á ekkert líf.“

Sonia segir að stjórnarandstaðan hafi boðað til allsherjarverkfalls í dag frá hádegi til klukkan 6. Þá loki allar verslanir og fólk streymi út á götur til að mótmæla með friðsömum hætti. Það þoli stjórnvöld ekki, þau ráðist á mótmælendur og drepi unga fólkið á götum úti.

Hún telur að um 70 prósent almennings séu á móti Maduro forseta og ríkjandi stjórnvöldum. Hún telur ekki að það sé hætta á borgarastyrjöld, þjóðin sé friðsöm í eðli sínu, en hún bindur vonir við að hægt verði að velta Maduro úr sessi fyrir árslok. Annars verði þjóðin að bíða forsetakosninganna í desember 2018, þar verði vonandi hægt að koma Maduro frá völdum. 

Já, ég vona það. Ég vona það af því að almenningur er þreyttur. Fólkið er svangt. Fólkið vill ekki Maduro.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV