Fleskgæra í húsi Haustaks í Fellabæ

15.05.2017 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Bjalla, sem kölluð er fleskgæra, hefur fjölgað sér í aflögðu fiskvinnsluhúsi í Fellabæ. Lirfur kvikindisins éta sig inn í einangrun og timbur en eigendur hússins sem er til sölu segja það ekki skemmt.

Kom líklega í strigapokum

Fiskþurrkun var um árabil stunduð í Fellabæ en starfsemi undir merkjum Haustaks var hætt um áramót. Síðan þá hefur verið reynt að finna húsinu annað hlutverk. Talið er að bjallan hafi borist með strigapokum en árum saman hefur hún fjölgað sér í húsinu enda kjöraðstæður fyrir hana: hiti og nóg æti. Bjöllunni hefur verið haldið niðri með eitri en það var ekki fyrr en nýlega sem eintak var greint hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í ljós kom að þar var á ferð fleskgæra en hún hefur áður fundist bæði í Reykjavík og í Eyjafirði.

Hættu við að kaupa húsið

Fleskgæran í Haustakshúsinu í Fellabæ er þegar orðin örlagavaldur á Héraði. Fornvéla- og tækjasafn Austurlands var komið á fremsta hlunn með að kaupa húsið og gera að safni þegar ábending barst um pödduna og hætt var við kaupin. Ólíklegt er hins vegar talið að hún lifi lengi í húsinu nú þegar allur þurrkaður fiskur er á brott.

Segja húsið í lagi

Sögusagnir eru um að burðarvirki hússins sé skemmt eftir lirfurnar en fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar að fullvaxnar lirfur nagi sig inn í fast efni eins og einangrun og tréverk. Þær nærast hins vegar ekki á timbrinu heldur nota það sem skjól. Eigendur Haustaks vísa því á bug að húsið sé skemmt og það verði nú hreinsað. Erling Ólafsson skordýrafræðingur segir í samtali við fréttastofu að bjallan þurfi að komast í kjöt eða annað prótein til að þroskast og hún ætti því ekki að þrífast til langframa í húsinu. 

Hér má lesa um fleskgæru á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV