Fleiri íhuga að segja upp

19.05.2017 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkraflutningamenn hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) íhuga nú alvarlega að segja upp störfum. Engin lausn er í sjónmáli í kjaradeilu sjúkraflutningamanna í hlutastarfi og ríkisins.

Haldinn var samningafundur í deilunni í morgun og hefur næsti verið boðaður á þriðjudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu er sæmilegur gangur í viðræðunum, en engin lausn í sjónmáli.  

Líkt og fjallað hefur verið um á síðustu dögum þá hafa sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands sagt upp störfum og munu, ef ekki nást samningar, hætta störfum um miðja næstu viku. Sjúkraflutningamenn eru ósáttir við kjör sín og að ekki hafi verið gerður nýr kjarasamningur við þá líkt og samið var um í árslok 2015. 

Ósætti gætir meðal sjúkraflutningamanna á fleiri stöðum. Einar Sveinn Jónsson, sjúkraflutningamaður hjá HSS, segir í samtali við fréttastofu, að Suðurnesjamenn séu alvarlega farnir að íhuga uppsagnir. Hjá stofnuninni vinna sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi. 

Einar Sveinn segist vera orðinn þreyttur á ástandinu, álag hafi aukist mikið á síðustu árum, líkt og hjá öðru heilbrigðisstarfsfólki, en launin hafi ekki fylgt í kjölfarið. „Menn hafa í gegnum tíðina litið á þetta sem samfélagslega skyldu, en ég er ekki viss um að margar starfsstéttir myndu gera þetta fyrir þennan taxta,“ segir Einar.