Fleiri ferðamenn en íbúar í miðborginni

21.03.2017 - 21:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nemendum hefur fækkað í skólum í miðbænum og deildum á leiksskólum lokað vegna fólksfækkunar. Þetta segir Benóný Ægisson, formaður íbúasamtaka miðbæjar. Íbúafundur um málefni miðborgarinnar hófst klukkan átta í Ráðhúsi Reykjavíkur.    

Fjölgun ferðamanna og ruðningsáhrif vegna þeirra er eitt af því sem brennur á íbúum miðborgarinnar. Ónæði hefur verið vegna byggingaframkvæmda og rútubifreiða við aðlagötur miðborgarinnar. Fleiri íbúðir eru nú leigðar til ferðamanna en áður og íbúum hefur fækkað.   

Benóný Ægisson formaður íbúasamtaka miðborgar segir að þessu þurfi að setja einhver takmörk, „þannig að allt íbúðarhúsnæði fari ekki undir að leigja til ferðamanna.“

Mjög dýrt er að leigja eða kaupa húsnæði í miðborginni sem hefur orðið til þess ungt fólk og barnafólk flytur annað. „Þetta var mikið barnahverfi á tímabili við erum mjög hræddir við að við séum að missa út unga fólkið og börnin. Geta borgaryfirvöld gert eitthvað í þessu?  Ég veit það ekki mér finnst alla vega þau bregðast mjög seint við satt að segja.“

Þjónusta í miðbænum var ekki nógu mikil til að taka á móti skriðu ferðamanna. Nú eru tvöfalt fleiri ferðamenn en íbúar í miðbænum á hverjum tíma. Benóný verður var við að íbúum hefur fækkað.  „Við sjáum það að það fækkar í skólanum og það hafa verið lokaðar deildir í leikskólanum og ég sé það nú bara út um gluggann hjá mér það er búið að leggja megnið af íbúðunum fyrir framan mig í bakhúsi á Skólavörðustígnum undir leigu til ferðamanna.“

„Ég er náttúrlega ánægður með það að það sé einhver uppbygging í gangi til að mæta þessu og einhverntíma hlýtur hún nú að taka enda.“

„Það sem ég hef áhyggjur af er gamla byggðin, að henni verði rutt of mikið í burtu og mér finnst t.d. algjörlega svívirðilegt þegar kirkjugarðurinn gamli var tekinn og rótað í burtu til að væri hægt að stækka eina hótelbyggingu.“