Fjórir enn á sjúkrahúsi eftir slys

16.05.2017 - 11:28
Mynd með færslu
Aðgerðir við Læknesstaðabjarg á Langanesi í gær  Mynd: Björgunarsveitin Hafliði
Tveir af fjórum erlendum ferðamönnum, sem fluttir voru með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir bílslys í Vatnsdalshólum í gærkvöld, hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsinu.

Hinir tveir eru þar enn til rannsóknar og að sögn læknis á sjúkrahúsinu er annar þeirra meira slasaður. Ekki er þó um lífshættulega áverka að ræða.

Maðurinn sem slasaðist á fæti við eggjatöku í Læknesstaðabjargi á Langanesi í gærkvöld, og var sömuleiðis fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri með þyrlu Landhelgisgæslunnar, fór í aðgerð þar. Líðan hans er eftir atvikum góð, að sögn læknis.

Ekki fengust upplýsingar um líðan erlends ferðamanns sem fluttur var alvarlega slasaður á Landspítalann í Fossvogi eftir umferðaslys við Reynisfjall síðdegis í gær.