Fjölmenningarsafarí á 6 tungumálum

04.07.2017 - 12:56
Reykjavík Safarí er menningarleiðsögn á vegum Borgarbókasafns Reykjavíkur og fagnar nú 10 ára afmæli sínu. Leiðsögnin fer fram á 6 tungumálum og er hluti af kvöldgöngudagskrá Borgarbókasafnsins, Borgarsögusafns Reykjavíkur og Listasafns Reykjavíkur.

 „Þeir sem eru áhugasamir um að fá leiðsögn á arabísku, víetnömsku, pólsku, portúgölsku, ensku eða spænsku, geta mætt hérna fyrir framan Borgarbókasafnið Tryggvagötu á fimmtudaginn klukkan átta,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu.Fara gestir inn í sinn svokallaða tungumálahóp, þar sem hægt er að fá vandaða leiðsögn um menningarlíf borgarinnar.

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Leiðsögnin er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Listasafns Reykjavíkur, Borgarsögusafns og Bókmenntaborgarinnar, og verða starfsmenn þessara safna með stuttar kynningar á starfi sínu sem verða túlkaðar yfir á þessi tungumál.

Innflytjendur eru leiðsögumenn

Sérlegir leiðsögumenn af erlendu bergi brotnir hafa verið fengnir til starfa af þessu tilefni. „Inni á milli staðanna er leiðsögumaðurinn að segja frá á sínu móðurmáli þannig að við erum hérna að virkja innflytjendur sem búa hérna í Reykjavík. Þeir eru leiðsögumenn hjá okkur og við erum búin að leiðbeina þeim, og eru svo að miðla skemmtilegum hlutum á sínu móðurmáli.“

Leiðsögumennirnir hafa farið í gegnum undirbúning með starfsmönnum safnsins, og Kristín hefur sjálf gengið gönguna með þeim, í kennsluskyni. „Þessir leiðsögumenn eru líka að læra á borgina í leiðinni þannig að það kemur ýmislegt skemmtilegt fram í þesssum undirbúning.“

Bollywood dans í lok göngu

Borgarbókasafnið í Grófinni, Landnámssýningin, Stjórnarráðið, Harpa og Þjóðleikhúsið eru meðal þeirra staða sem koma við sögu á göngunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay  -  Pexels
Harpan er meðal þeirra staða sem bent verður á í göngunni.

„Svo verður líka stoppað fyrir framan Alþingishúsið og sagt frá nokkrum staðreyndum þar. Stytturnar verða skoðaðar, þannig að þetta er mjög fróðlegt, en fyrst og fremst bara mjög skemmtilegt að hittast og upplifa svona saman,“ segir Kristín.

Í lok göngunnar verður boðið upp á skemmtiatriði í Grófinni, en inni á bókasafninu verður dansaður Bollywood dans. „Þannig að þá hittast allir þessir hópar, og fá smá hressingu og tala saman.“ Gangan hefur verið vel sótt undanfarin ár, og er í stöðugri mótun. „Þetta hefur þróast þannig að það hafa mætt á milli 60 og 100 manns í hvert skipti. Við aðlögum auðvitað prógrammið, ef það eru einhverjar breytingar þá uppfærum við.“

„Þetta er mjög fjörugt, þegar mörg tungumál mætast.“

Gengið verður frá Borgarbókasafninu Tryggvagötu á fimmtudagskvöldið klukkan 20:00. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Nánari upplýsingar um kvöldgöngudagskrá sumarsins má nálgast á vefsíðu bókasafnsins.

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn