Fjölga íbúðum í Úlfarsárdal

14.05.2017 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti fyrir helgi að byggja nýtt íbúðahverfi í Úlfarsárdal. Guðfinna Jóhanna Guðmundssdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, segir þetta ferli hafa tekið alltof langan tíma, meirihluti borgarstjórnar hafi einblínt á þéttingu byggðar í miðborginni.

 

Reykjavíkurborg hefur unnið að því síðustu ár að þétta byggð. Eldri hverfi hafa verið endurskipulögð og þannig greitt fyrir uppbyggingu vannýttra lóða. Uppbygging hófst í Úlfarsárdal fyrir rúmum áratug. Íbúar hafa síðustu ár kvartað undan því að uppbygging í hverfinu gangi hægt en borgaryfirvöld flýttu framkvæmdum fyrir tveimur árum og lögðu aukna fjármuni til uppbyggingar á svæðinu. 

Borgarráð samþykkti fyrir helgi nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir 1.300 íbúðum í Úlfarsárdal en nýja hverfið á að rísa við Leirtjörn. Í dalnum verða því um 900 fjölbýlishús og 400 sérbýli. Hverfið verður að mestu óbreytt sunnan Skyggnisbrautar en norðan hennar rís nýja hverfið á nærri fjögurra hektara landi. 

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, segir kjörið að fjölga íbúðum enn frekar á þessu svæði. „Þetta er svæði þar sem Reykjavíkurborg á lóðirnar, því er ekki þannig háttað um öll þessi svæði sem verið er að byggja upp. Hins vegar er þetta ekki nóg, 422 íbúðir er ekki mikið og það eru komin núna næstum því tvö ár frá því að við lögðum fram þessa tillögu um að gera breytingar á skipulagi Úlfarsárdals sem var grundvöllurinn af þessari vinnu.“

Deiliskipulagið hefði átt að vera tilbúið á síðasta kjörtímabili. „Í upphafi þessa kjörtímabils hefði átt að úthluta fjölbýlishúsalóðum og byrja að byggja og það húsnæði hefði átt að vera orðið klárt nú þegar. Þannig að þetta er búið að taka alltof langan tíma vegna ákvörðunar meirihluta borgarstjórnar um það að þétta eingöngu í kringum miðbæinn og selja ekki lóðir.“ 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV