Fjarrænt, fumlaust og feykisvalt

Figure
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
vök
 · 
Menningarefni

Fjarrænt, fumlaust og feykisvalt

Figure
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
vök
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
26.05.2017 - 09:49.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Vök gefur hér út sína fyrstu breiðskífu, Figure. Áfram er byggt á þessum stálkalda, stíliseraða hljóðheimi sem hefur verið í þróun undanfarin ár og er nýjasta fínpúsningin giska tilkomumikil. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Dúett, tríó og nú kvartett. Vök hefur vaxið frá stofnun – bæði meðlimalega og tónlistarlega. Það var alveg ljóst er Vök keppti nýstofnuð í Músíktilraunum 2013 að hér var mikið efni á ferð enda sigraði dúóið keppnina með glæsibrag. Og leiðin hefur verið upp á við síðan, uppbygging sem hefur verið hæg, örugg og bítandi. Ákveðin skref fram á við og reglubundin eins og sjá má í mörgu, til dæmis bara útgáfutíðninni (stuttskífa strax árið 2013, önnur 2015 og nú breiðskífa 2017. Allt mjög reglulegt. Tvöfaldur ópus 2019?).

Bandið hefur gætt þess að fara sér í engu óðslega, tónlistinni hefur verið leyft að þroskast, þróast og marinerast og árangurinn er ekki bara auðheyranlegur heldur sjáanlegur líka. Á tónleikum er þetta orðið mjög „erlendis“ – og þá í jákvæðum skilningi þess orðs – sveitin á með öðrum orðum alveg sömu möguleika á að hasla sér völl á alþjóða vettvangi og hver sú önnur sem reynir sig við svipaða tónlist.

Draumar og martraðir

En hver er svo þessi tónlist og hvert er Vök komin? Frá fyrstu tíð hefur verið lagt upp með draumkennda, rafskotna nýbylgju og sveitin hefur verið að vinna í því formi síðan, steinninn slípaður frá morgni til kvölds. Á Figure er tónlistin straumlínulagaðari en áður, heildarhljómurinn afar sannfærandi og platan er heilsteypt. Tíu lög í sama fasa út í gegn með tilbrigðum við stef. Lagt er upp með að vera svalur; brosa lítið og vera dulítið vélrænn, halda aftur af sér og vera til baka. Þetta er dumbungslegt og melankólískt, kæruleysislega kúl og Vök er algerlega að „púlla“ þetta allt saman.  

Maður hugsar óneitanlega til The xx og Portishead, Beach House flæða um í dekkri lögum og Moloko, einhverra hluta vegna, poppaði líka upp í hausnum. Þessi andi sveitarinnar sem ég hef nú lýst er vinklaður inn í alla þætti. Tökum til dæmis takta og trommuslög. Þau eru varleg og viðkvæmnisleg, hljóma stundum eins og þegar steinvölur skvampa létt í vatni. Eins er með hluti eins og gítarspil, hljómborð og aðra forritun – allt styður þetta við heildarbraginn.

Ljós og skuggar

 „Breaking Bones“ opnar plötuna og þar togast á ljós og skuggar, draumflæði samfara martraðarkenndum uppbrotum. Margrét Rán söngkona gerir vel, eins og reyndar í öllum lögum plötunnar. Afar sjarmerandi forvígismaður – á þennan afskipta hátt – og fangar glæsilega þessa áru sem sveitin leggur upp með. Það er í raun erfitt að taka eitt lag fram yfir annað, sum líða um í skugganum („Crime“ t.d. og hið ambient-legna „Floating“ sem ber nafn með rentu. Svei mér þá, Vök gæti vel lokað einum Twin Peaks þætti. Vonum að Lynch sé að lesa). Svo eru poppaðri smíðar ef svo mætti segja, „Show Me“ og „Figure“ eru ágætt dæmi þar um. En allt virkar þetta vel eins og segir. Figure er þannig firnasterkur frumburður og nú er lag að fara með þetta enn lengra.

Tengdar fréttir

Tónlist

Flæðir áfram, líkt og fallegt fljót

Tónlist

Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

Tónlist

Hrátt og bikað þjóðlagarokk

Tónlist

Óreyndir en efnilegir