Fjárfestar vilja efla Hornafjarðarflugvöll

30.08.2017 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Hópur innlendra og erlendra fjárfesta sem hyggur á uppbyggingu hótels og afþreyingar í Lóni vill vinna með samgönguráðuneytinu að því að gera Hornafjarðarflugvöll að millilandaflugvelli. Jón Gunnarsson samgönguráðherra segist tilbúinn að skoða þann möguleika að fjárfestarnir komi að uppbyggingu vallarins og rekstri.

Bæjaryfirvöld á Hornafirði hafa lengi þrýst á um að flugvöllurinn á Höfn geti þjónað sem millilandaflugvöllur. Völlurinn er nógu stór fyrir litlar og meðalstórar millilandavélar en bæta þarf aðstöðuna, meðal annars til að hægt sé að tollafgreiða vélar. Þingsályktunartillaga um eflingu flugvallarins hefur verið flutt á Alþingi en aldrei fengist afgreidd.

Nú gæti hins vegar verið að komast hreyfing á málið. Fjárfestar keyptu jörðina Svínhóla í Lóni og áforma þar uppbyggingu hótels og afþreyingar fyrir ferðamenn. Þeir hafa sett sig í samband við Samgönguráðuneytið og lýst yfir áhuga á því að hægt sé að lenda millilandavélum á Hornafjarðarflugvelli.

Einn af fjárfestunum er Áslaug Magnúsdóttir, stofnandi tískufyrirtækisins Moda Operandi. Þar sem verkefnið er á frumstigi vildi hún ekki tjá sig um málið að sinni.

Aðspurður um hvort fjárfestarnir hafi viðrað þá hugmynd að þeir keyptu flugvöllinn á Höfn segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra að málið hafi aðeins verið rætt á óformlegum fundi og hann hafi ekki séð neinar mótaðar tillögur. Þeir hafi líst yfir áhuga á að hægt sé að lenda þar millilandavélum.  „Ef að það er ætlun þeirra aðila að styrkja flugvallarstarfsemina hvort sem er að koma að rekstri eða uppbyggingu  þá er það eitthvað sem við erum alveg til í að taka þátt í umræðum um,“ segir Jón.

Jón bendir á að ríkið hafi ákveðnum skyldum að gegna á flugvöllum sem eiga að geta þjónað sem millilandaflugvellir. Starfshópur sem skoðar möguleika á að gera innanlandsflug ódýrara á líka að finna leiðir til að gera rekstur flugvalla hagkvæmari. „Ég get alveg sé fyrir mér samstarf við staðbundna aðila í þeim efnum. Hvort sem að það væri þá sveitarfélög, eða í einhverjum tilfellum mögulega einkaaðilar, þar sem að væri verið að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri innanlandsflugvallanna,“ segir Jón. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV