Fjallabyggð hafnar aðkomu að sjúkraflutningum

16.05.2017 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur hafnað beiðni Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, um aðkomu Slökkviliðs Fjallabyggðar, við að koma á fót vettvangshópi í Ólafsfirði eftir að vakt sjúkraflutningamanna þar var lögð niður.

Bæjarráð segir verkefnið alfarið á ábyrgð HSN og það sé stofnunarinnar að leysa þau verkefni sem tengist heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisvaldsins í Fjallabyggð.

Í bókun, sem samþykkt var á fundi bæjarráðs í morgun, mótmælir ráðið harðlega þeirri skerðingu sem fyrirhuguð er á þjónustu HSN í Fjallabyggð. „Bæjarráð telur óásættanlegt að vakt sjúkraflutningamanna í Ólafsfirði verði lögð niður. Jafnframt telur bæjarráð óásættanlegt að heilsugæslan í Ólafsfirði verði lokuð eftir hádegi yfir sumartímann. Ekki er einungis um að ræða skertan aðgang íbúa að heilsugæslu heldur einnig lengri afgreiðslufrest á lyfjum,“ segir í bókun bæjarráðs sem hvetur forstjóra HSN til að leita annarra leiða svo ekki þurfi að koma til þessarrar þjónustuskerðingar.

Bæjarstjóra Fjallabyggðar var falið að senda þessa bókun til heilbrigðisráðherra, framkvæmdarstjóra HSN og þingmanna kjördæmisins.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV