Fimm fjölbýlishúsalóðum úthlutað á 31 mánuði

10.03.2017 - 08:38
Guðfinna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar-og flugvallarvina, gagnrýnir hversu fáum lóðum hefur verið úthlutað í borginni á kjörtímabilinu. Fimm fjölbýlishúsalóðum hafi verið úthlutað á 31 mánuði.

Borgarstjóri sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 fyrr í vikunni að fordæmalaus uppbygging væri framundan í Reykjavík. Því er Guðfinna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina ekki sammála. Hún segir að lítið hafi gerst frá upphafi kjörtímabilsins og að ekki verði búið að mæta núverandi þörf á húsnæðismarkaði fyrr en í kringum árið 2020. Nærri 400 íbúðir hafi verið fullgerðar í borginni í fyrra og stefnt að því að um 600 verði fullgerðar á þessu ári. Það vanti því enn fjögur til fimm þúsund íbúðir til að mæta þeirri þörf sem er til staðar. Guðfinna segir að mistök núverandi og síðasta meirihluta hafi verið að vera ekki nógu dugleg að skipuleggja og úthluta ekki lóðum. 
 
„Bara núna fyrstu 31 mánuð þessa kjörtímabils, frá fyrsta júní 2014 til síðustu áramóta, þá hafði meirihlutinn eingöngu úthlutað fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum. Þar af voru tvær til eldri borgara, ein til Búseta, ein var seld á almennum markaði - Tryggvagata 13  - og síðan var það Félagsbústaðir sem fengu úthlutað lóð til að byggja sex íbúða sambýli. Það gengur auðvitað ekki að það sé ekki verið að úthluta lóðum í borginni. Þéttingarstefnan ein og sér gengur ekki upp því það tekur langan tíma að skipuleggja hlutina. Ef við skoðum bara Vogabyggðina, þá eru í haust komin fimm ár frá því byrjað var að vinna að þeim hugmyndum og líklega ekki byrjað að byggja þar fyrr en næsta vetur. Þannig að öll undirbúningsvinna tekur mjög langan tíma,“ sagði Guðfinna í Morgunútvarpinu í morgun.  Hlusta má á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Fréttin hefur verið leiðrétt. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi