FH vann á Hlíðarenda - Oddaleikur á sunnudag

18.05.2017 - 21:37
Í kvöld mættust Valur og FH í fjórða leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Með sigri hefði Valur geta tryggt sér titilinn en FH voru ekki á þeim buxunum og unnu leikinn á endanum 30-25.

Yfirburðir FH í fyrri hálfleik

FH byrjaði leikinn töluvert betur og voru 3-0 yfir þegar fjórar mínútur voru búnar. FH kom mjög vel gírað til leiks og bætti í hægt og bítandi á meðan fyrri hálfleik stóð. Valur átti í stökustu vandræðum á báðum endum vallarins og þeim gekk bölvanlega að koma boltanum í netið ásamt því að markvarsla liðsins var léleg.

FH gekk á lagið og staðan í hálfleik var 19-12 fyrir gestina. Hinn ungi Gísli Þorgeir Kristjánsson fór fyrir sínum mönnum frá Hafnafirði en hann skoraði sex mörk í fyrri hálfleik. Þar á eftir kom Ásbjörn Friðrikson með fimm mörk, þar af tvö úr vítum sem hann setti snyrtilega í hornin niðri.

Hjá Val var Josep Juric atkvæðamestur í fyrri hálfleik með þrjú mörk, þar af eitt víti. 

 

FH-ingar héldu út þrátt fyrir smá spennu

Gísli Þorgeir opnaði síðari hálfleikinn með snyrtilegu marki og kom FH átta mörkum yfir. FH ingar héldu því forskoti næstu mínutur og virtist sem Valur hefði engan áhuga á að vera með í kvöld.

Um miðbik síðari hálfleiks vöknuðu Valsmenn þó af værum blundi og náðu að minnka muninn niður í fimm mörk. Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, tók þá leikhlé til að stöðva áhlaup Valsmanna.

Leikhléið virtist ekki bera tilætlaðan árangur og Valsmenn gengu á lagið á meðan stressið sagði til sín hjá FH-ingum. Allt í einu gat FH ekki skorað mark þó lífið lægi við og staðan orðin 24-21 þegar um það bil þrettán mínutur voru til leiksloka. 

Þarna var 6-1 kafli í gangi hjá Val og Sigurður Ingiberg Ólafsson hafði hreinlega múrað fyrir markið hjá Valsmönnum. Valsmenn fóru hins vegar illa með sóknir sínar og FH kom sér á endanum aftur inn í leikinn. Staðan orðin 27-21 fyrir FH þegar sjö mínútur lifðu leiks.

Fór það svo að FH vann leikinn 30-25 og tryggðu sér þar með oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. 

Markahæstur í liði FH var Gísli Þorgeir Kristjánsson með 8 mörk. Þar á eftir komu Ásbjörn Friðriksson með 7 mörk og Einar Rafn Eiðsson með 6 mörk. Ágúst Elí Björgvinsson varði átta skot og Birkir Fannar Bragason varði fjögur skot.

Hjá Val voru Josep Jusic Grgic með sex mörk og Sveinn Aron Sveinsson með fimm mörk.  Siigurður Ingiberg Ólafsson varði 10 skot á meðan hinn reyndi Hlynur Morthens var með aðeins eitt varið skot.

Oddaleikur um Íslandsmeistaratitilinn verður leikinn á sunnudag klukkan 16:00 í Kaplakrika. Að sjálfsögðu í beinni á RÚV.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður
Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður