Fermast í notuðum fötum

20.03.2017 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Allmargir sóknarprestar í Danmörku hvetja verðandi fermingarbörn til að klæðast notuðum fatnaði á fermingardaginn. Fyrirkomulagið mælist vel fyrir hjá fermingarbörnum sem hugsa sér gott til glóðarinnar að ráðstafa fatapeningunum á annan hátt.

Cecilie Sørensen þarf, líkt og fjöldi fermingarbarna, að finna sér föt til að klæðast á hinum mikla merkisdegi. Ólíkt flestum öðrum ætlar Cecile hins vegar að klæðast fötum sem önnur fermingarbörn hafa notað.

Endurvinnsla sem þessi hefur færst í vöxt og sífellt fleiri sóknir í Danmörku hvetja fermingarbörn til að gefa föt sín og bjóða öðrum fermingarbörnum að nýta þau.

„Þá getur maður líka notað peningana í annað. Það þarf ekki allt að vera glænýtt,“ segir Cecilie.

Í Østbirk-kirkjunni mælist sóknarpresturinn meira að segja til þess að öll fermingarbörnin skarti þar minnst einni notaðri flík. 

„Auðvitað mega þau kaupa sér nýja flík, en þá verða þau bara að muna að láta okkur fá hana fyrir fermingarbörnin á næsta ári,“ segir sóknarpresturinn Lone Buhl Petersen.

Hún hefur safnað um 70 flíkum og um helmingur þeirra er þegar kominn í vörslu verðandi fermingarbarna.

„Þetta er ekki bara fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna. Þetta er fyrir alla sem eru skynsamir,“ segir Petersen.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV